Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

virðisaukaskattur.

679. mál
[16:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Smá atriði varðandi XXIV. ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt. Það er smá galli í þeirri grein, ekki endilega í þessu frumvarpi heldur í lögunum eins og þau eru í dag, óbeinn galli. Þetta er pínu skrýtið. Ég ætla aðeins að fara yfir það og biðja nefndina um að laga þennan galla. En svo er mál með vexti að í ákvæði til bráðabirgða XXIV er m.a. heimild til þess að fella niður virðisaukaskatt af léttum bifhjólum. Nema hvað að þegar þessu var breytt þá hljómaði þetta svona í 2. tölulið 9. mgr. 14. gr. bráðabirgðakaflans, með leyfi forseta:

„2. Af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni að hámarki 96.000 kr. Létt bifhjól eða reiðhjól skal falla undir b-lið 28. tölul. eða b-lið 30. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, og vörulið 8711 í tollskrá. Létt bifhjól skal vera skráð sem létt bifhjól I í ökutækjaskrá, sbr. 28. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019.“

Nema hvað að svo eru breytingar gerðar á umferðarlögum. Þetta er dálítið óheppilegt. Þar er tiltekið að undanþegin skráningarskyldu eru létt bifhjól í flokki I á meðan lög um virðisaukaskatt kveða á um að þau þurfi að vera skráð í ökutækjaskrá til að fá undanþáguna frá virðisaukaskattinum. Ég sendi fyrirspurn á Skattinn um þetta og vakti athygli á að samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði eiga hjól rétt á niðurfellingu virðisaukaskatts ef þau uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. að þau séu skráð í ökutækjaskrá. En hins vegar samkvæmt breytingu á umferðarlögum sem samþykkt voru 11. maí 2021 eru létt bifhjól í flokki I, sem eru undir 4 kílóvöttum og undir 25 km á klukkustund, nú undanþegin skráningarskyldu og ekki hægt að skrá hjólin hjá ökutækjaskrá. Það virðist hafa þær afleiðingar að virðisaukaskattur er ekki lengur felldur niður af þessum hjólum þrátt fyrir að það hafi verið tilgangur lagabreytingarinnar á umferðarlögum og þá lögum um virðisaukaskatt sem voru samþykkt 2019. Þessi hjól fengu sem sagt niðurfellingu á virðisaukaskatti frá því að þetta bráðabirgðaákvæði var samþykkt árið 2019 þangað til umferðarlögum var breytt árið 2021. Þá gleymdist að fella niður sambærilegt ákvæði í virðisaukaskattslögunum.

Ég spyr Skattinn og hann svarar því að ákveðin mistök virðist hafa átt sér stað hjá löggjafanum þegar breyting á umferðarlögum átti sér stað í maí 2021 því ekki var tekið tillit til nefnds bráðabirgðaákvæðis í lögunum og því bráðabirgðaákvæði breytt þegar breytingin á umferðarlögum var samþykkt. Það leiðir til þeirrar stöðu að óskráð létt bifhjól geta í rauninni ekki notið niðurfellingar á virðisaukaskatti skv. XXIV. bráðabirgðaákvæði við tekjuskattslögin. En tollayfirvöld bentu fjármálaráðuneytinu á þetta vandamál þarna aðeins fyrr. Tollayfirvöld þurfa að fara eftir þeim lögum sem þeim ber að framfylgja og eins og bráðabirgðaákvæðið er orðað í dag er ekki heimilt að fella niður virðisaukaskatt af rafknúnum léttum bifhjólum nema þau séu skráð hjá Samgöngustofu. Þetta misræmi hefur sem sagt áhrif, segir Skatturinn, á rafknúin reiðhjól sem falla utan skilgreiningar á reiðhjólum, þ.e. ef þau eru aflmeiri en 0,25 kílóvött og einnig rafknúin hlaupahjól sem falla utan gildissviðs vélatilskipunar ESB, t.d. vegna þess að fylgigögn þeirra og afl mótors gefi til kynna að hámarkshraði sé yfir 25 km á klukkustund. Það er mjög flókið hvernig létt bifhjól falla í flokk I og II miðað við afl og hraða og alls konar svoleiðis. Það væri nú bara mál út af fyrir sig hjá umhverfis- og samgöngunefnd að einfalda þetta eitthvað. En hefðbundin rafknúin reiðhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga og önnur lítil rafknúin ökutæki sem eru með hámarkshraða á bilinu 6–25 km, t.d. vélknúin hlaupahjól o.s.frv., njóta áfram ívilnunar. Einnig hefur misræmið áhrif á rafmagnsvespur og önnur lítil rafmagnsbifhjól sem fara ekki hraðar en 25 km á klukkustund.

Ég held að það sé smá misræmi í þessu svari Skattsins þar sem annars vegar er fjallað um hámarkshraða yfir 25 km og hins vegar ekki hraðar en 25 km. En óháð því þá er staðan sú að ákveðinn flokkur þessara farartækja naut áður ívilnunarinnar og tilgangur bráðabirgðaákvæðisins í lögum um tekjuskatt er að þessi farartæki njóti þeirrar ívilnunar. Alþingi setti þau lög 2019. En það var breyting á umferðarlögum árið 2021 sem felldi að mönnum óafvitandi burt þær ívilnanir. Þingið hafði ekki hugmynd um að það að taka skráningarskyldu af einhverri ákveðinni tegund af farartækjum myndi fella niður ívilnunina af því að það var í allt öðrum lögum um tekjuskatt. Svona getur þetta oft gerst.

Það ætti að vera mjög auðvelt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að laga bráðabirgðaákvæðið að því að viðkomandi farartæki þurfa ekki að vera skráningarskyld eða skráð í ökutækjaskrá. Það þarf ekki að gera neina útreikninga á því eða neitt svoleiðis því það er þegar búið að gera ráð fyrir því, samkvæmt lögum um virðisaukaskatt er ætlast til þess að þessi farartæki hljóti þessa ívilnun. En í augnablikinu er ríkið að græða á því, þannig séð, að það er enginn að nýta þessa ívilnun. Það er þegar búið að gera ráð fyrir þessu í fjárlögum og öllu því um líku. Þetta snýst bara um að leiðrétta þessi mistök sem voru gerð við breytingu á umferðarlögum sem hafa þessi hliðaráhrif á ívilnanir umhverfisvænna farartækja samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði sem er verið að breyta í þessum lögum. Ég hef aðeins potað í efnahags- og viðskiptanefnd hvað þetta varðar og ég held að það ætti að taka stuttan tíma að bæta þetta. Ég vonast eftir því besta og reyni að fylgjast með því hvort það gerist ekki örugglega.