Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

almannavarnir.

181. mál
[18:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir ekki bara góða framsögu eins og við gerum hér oft heldur líka fyrir það að vinna þetta ákveðna frumvarp vel í gegnum nefndina og taka á þeim ágreiningsatriðum, laga þau sem gerir það að verkum að þetta frumvarp er nú vonandi komið nægilega langt til þess að við getum klárað það hér á næstu dögum í afgreiðslu þingsins. Hafandi starfað fyrst sem sjálfboðaliði við almannavarnir hér á landi og eins verið tengdur almannavarnaviðbragði í öðrum löndum, þá tel ég að það sem er í þessu frumvarpi sé allt til hins góða. Það er verið að skýra ákveðna hluti eins og almannavarnastigin, það er verið að skilgreina þessa hluti betur. Þetta eru hlutir sem við í dag vinnum eftir en það að setja lagalegan ramma í kringum þá skiptir virkilega miklu máli. Það er að sjálfsögðu aðeins verið að laga til, eins og almannavarnaráðið og allt það, og það er náttúrlega hið besta mál. Einnig er verið að uppfæra nöfn á stofnunum og félagasamtökum og gætum við þurft að vera í endalausri slíkri vinnu.

En það sem mér þykir vera stærsti punkturinn hérna og mig langaði að tala aðeins um, það er c-liður 19. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um móttöku erlends hjálparliðs, þ.m.t. um tímabundin starfsleyfi fyrir erlent fagfólk, um undanþágur frá ákvæðum laga sem tefja eða takmarka möguleika á innflutningi dýra og búnaðar sem nota þarf við hjálparstörf og undanþágur frá aðflutningsgjöldum vegna tímabundins innflutnings.“

Þetta er atriði sem við sem höfum tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi erum búin að vera að berjast fyrir í 17 ár.

Fyrir um 17 árum síðan var haldin norræn björgunarráðstefna á Íslandi, svokölluð NORDRED-ráðstefna. Þar kom Dani sem var yfir hjálparstofnun eða samhæfingarstofnun Sameinuðu þjóðanna í mannúðarstörfum og hélt fyrirlestur sem hann kallaði „Erum við of stolt til að biðja um hjálp?“, og á 20 mínútum fór hann í gegnum öll Norðurlöndin og setti fram sviðsmyndir sem var mjög auðvelt að reikna með að myndu raungerast í þessum löndum og benti á að viðbragðskerfi landanna, allra þessara mismunandi Norðurlanda, gæti ekki ráðið við þetta.

Íslenska dæmið sem hann nefndi og ráðstefnan sjálf var haldin í kringum var: Hvað gerist ef það kviknar í skemmtiferðaskipi við strendur Íslands? Ég man ekki hver talan er núna en á þeim tíma höfðum við átta sjúkrarúm fyrir fólk með brunasár. Miðað við fjölda rúma á bráðamóttökum, hvernig hún hefur verið lækkuð á undanförnum tíu árum, þá hef ég trú á því að þessi tala hafi ekki hækkað á þessum tíma. Með öðrum orðum, ef það kviknar í skemmtiferðaskipi við strendur Íslands þá þurfum við að setja upp loftbrú með sjúklinga til Norðurlanda og annarra nágrannalanda. Þetta hefur verið æft innan almannavarna, og það þarf ekki einu sinni að vera skemmtiferðaskip. Flugslys, jafnvel stórt rútuslys og við ráðum ekki við það hér á landi. Þetta er möguleiki sem á eftir að gerast. En það sem við höfum líka varað við og talað um mjög lengi, er að ef hér verða eldgos eða jarðskjálftar af þeirri stærðargráðu að við þurfum að kalla eftir alþjóðlegri aðstoð, hvort sem hún kemur frá Norðurlöndum, Evrópusambandinu eða í gegnum Sameinuðu þjóðirnar, að þá hefur okkar kerfi verið þannig að t.d. þær björgunarsveitir sem hingað kæmu, rústabjörgunarsveitir, og ég var nú stjórnandi íslensku alþjóðasveitarinnar, gætu í dag ekki komið með leitarhunda, gætu ekki komið með lækna, gætu ekki komið með hjúkrunarfólk vegna þess að við getum ekki veitt þeim, fyrr en þessi lög eru komin, leyfi til að koma hundunum inn í landið og veitt hjúkrunarfólkinu og læknunum leyfi til að starfa hér tímabundið.

Ég fór til Japan árið 2011 þegar jarðskjálftinn mikli og flóðbylgjan dundu yfir. Þar þurftu þau einmitt í fyrsta skipti að taka á móti aðstoð og þau voru ekki undirbúin undir það. Eitt af því fyrsta sem þau gerðu eftir jarðskjálftana, þegar flóðbylgjan og viðbragðið við henni hafði sjatnað svolítið, var að læra af þessu og búa til regluverkið og allt í kringum það hvernig ætti að taka á móti aðstoð. Að sjálfsögðu getum við á Íslandi alltaf notað gamla góða „þetta reddast“. En því miður þá reddast það ekki ef við höfum ekki lagastoð fyrir því. Ég veit því að þessi ákveðna málsgrein á eftir að skipta sköpum þegar við lendum í slæmum hamförum. Þótt við hefðum verið ósammála um allt annað þá hefði þessi málsgrein þurft að fara inn vegna þess að við vitum aldrei hvenær þær hamfarir gerast þar sem við þurfum að biðja um aðstoð.

Mig langaði líka að nefna, af því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi rýnina og rannsóknarnefnd almannavarna eins og hún var sett upp í gömlu lögunum, þar sem ekki var til neitt fjármagn til að fjármagna rannsóknir, að ég tel að það sé betra að við séum að setja þetta regluverk á þennan máta. Eins og hv. þingmaður benti á þá köllum við hér innan Alþingis á rannsóknarskýrslur fyrir þær stóru hamfarir sem slíkrar vinnu þarfnast, og þá er passað að við setjum fjármagn í þá rýni. En það er líka mikilvægt, eftir að almannavarnastigi hefur verið aflétt, að þessir rýnifundir séu haldnir eins og sagt er í frumvarpinu. Ég man eftir mjög stórri æfingu í Keflavík þar sem haldinn var rýnifundur. Hann fólst í því að þáverandi sýslumaður stóð upp fyrir framan alla viðbragðsaðila og sagði: „Þetta var góð æfing. Takk fyrir kærlega. Bless.“ Það var nú öll rýnin sem gerðist. Það skilyrði að rita skuli fundargerð og ýmislegt annað, við skulum orða það þannig að viðkomandi hefði þá ekki komist upp með þá rýni.

Það er von mín að við getum sammælst um það úr öllum flokkum að koma þessu frumvarpi hratt og vel áfram. Það er gott að stærsta ágreiningsatriðið var sett á ís, það er að segja tekið út núna, og ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd að vinna með hæstv. dómsmálaráðherra í að byrja þá heildarendurskoðun sem við vitum að við þurfum að gera. Hún tekur tíma og við þurfum að vinna í henni. En þetta er mikilvægt skref í rétta átt og því mun ég styðja það.