Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[19:42]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bara gat ekki annað en komið í andsvar við hv. þingmann Sigmar Guðmundsson. Hann svo sem skoraði á mig áðan þegar hann hljóp sjálfur í ræðustól til að fjalla um málið og tilkynnti það að hann ætlaði fyrst og fremst að tala um Evrópusambandið, sem var ágætisupprifjun. Hann fór inn á Evrópusambandið og kom síðan inn á vestnorræna samstarfið, þ.e. vinasamband okkar Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga. Í framhaldi af því langar mig að fá að heyra ofan í hv. þingmann hvað sé sameiginlegt með vestnorræna samstarfinu og Evrópusambandinu. Menn geta staðið saman að ýmsum málum. En minn skilningur á Evrópusambandinu hefur hingað til verið sá að fyrst og fremst er þarna um tollabandalag að ræða. Í upphafi var þetta stofnað í kringum stál og kol á sínum tíma. Hv. þingmaður tók það að vísu fram í sinni ágætu ræðu að það væri kannski svolítið langsótt að líkja þessu saman. Mig langar að fara aðeins lengra með þessa umræðu og fá fram hvað er líkt með vestnorræna samstarfinu og Evrópusambandinu.