Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[19:46]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir gott og greinargott andsvar. Í framhaldi af því væri fróðlegt að taka umræðuna aðeins lengra. Það er oftúlkun hjá hv. þingmanni að ég sjái rautt og froðufelli þegar minnst er á Evrópusambandið. Það er nú ofsögum sagt. Ég tel okkur Íslendingum bara betur borgið utan þess eins og staðan er í dag. Gott og vel. Það má ýmislegt segja um það þegar Bretar fóru í Brexit. En þetta mál sem við erum að fjalla um núna snýr fyrst og fremst að því að vörur sem eru vottaðar lífrænar frá Evrópusambandinu koma í gegnum Bretland til Íslands og þess vegna erum við að fjalla um þetta. Það væri fróðlegt að taka umræðuna þá. Hv. þingmaður þuldi hér upp langan lista af því hversu megnugt og gott Evrópusambandið væri. Vissulega tónaði það nokkuð saman við margt af því sem við erum að gera í Vestnorræna ráðinu, þótt við séum ekki þar með ákveðna tollasamninga eða fríverslunarsamninga á milli landa. Aftur á móti eru samningar á milli okkar Íslendinga og Færeyinga, t.d. varðandi fiskveiði. Eins höfum við verið að flytja út töluvert af kjöti þangað. En það væri áhugavert að ræða í þessari umræðu að samstarf getur verið á svo margan hátt þótt menn séu kannski ekki innlimaðir í hið heilaga Evrópusamband. Vestnorræna ráðið er ágætisdæmi um það.