Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staða kjötframleiðenda.

[14:30]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að eiga hér orðastað við mig um þá stöðu sem blasir við okkur öllum. Ef ekkert verður að gert þá er það alveg ljóst að hjá þeim sem framleiða lambakjöt og þeim sem framleiða nautakjöt blasir við algjört hrun á þessu ári og næsta haust ef ekkert verður að gert og það hratt. Einnig vil ég benda á að það er líka mjög þung staða hjá þeim sem framleiða grísakjöt. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir sín viðbrögð og koma á fót starfshóp, svokölluðum spretthóp, sem kemur til með að skila ráðherra tillögum, að mér skilst, innan nokkurra daga. En ég vil í þessu samhengi minna enn og aftur á mál okkar í Framsókn sem snýr að mikilvægi þess að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði sambærilega undanþágu og mjólkuriðnaðurinn er með, þ.e. til samvinnu og samstarfs. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa hátt í 40% hækkun á sínu innleggi í haust til þess eins að standa á sléttu og það sama á við um hinar greinarnar, þ.e. nautakjöt og grísakjöt, og það segir sig sjálft að þessum hækkunum hrindum við ekki bara út á markaðinn sisvona í því ástandi sem við erum í í dag. Verðbólgan er komin af stað og við þurfum að horfa til allra þátta. Í því samhengi þurfum við einnig að horfa til þess að hið opinbera getur komið að málum líka og mun ég koma inn á það í minni seinni ræðu.