Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staða kjötframleiðenda.

[14:32]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin. Það má eiginlega segja að nú þegar hafi hluta vandans verið beint í þennan tiltekna farveg sem hér var nefndur sem er þessi spretthópur, sem gengur undir því heiti vegna þess hversu stuttan tímaramma hópurinn hefur til að aðhafast. Hópnum er ætlað að skila af sér tillögum og valkostagreiningu vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin og á að skila þessum tillögum af sér núna 13. júní, þannig að þetta eru örfáir dagar sem hópurinn hefur. Þar er auðvitað allt undir og ég held að það sé bara mjög mikilvægt að við leyfum þessari vinnu að klárast áður en ég tjái mig um einstaka liði í þeim efnum. Tillögurnar munu liggja fyrir strax í næstu viku og þá getum við tekið dýpri umræðu um þetta. En eins og fram kemur í máli hv. þingmanns þá snýst þetta fyrst og fremst um þær áskoranir sem hljótast af hækkun aðfanga í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Auðvitað er staðan orðin þannig að það eru sífellt minni líkur á því að þessar hækkanir gangi til baka á næstu mánuðum eða jafnvel misserum. Þessi þróun mun að öllu óbreyttu einfaldlega kippa stoðum undan rekstri bænda, m.a. flestra sauðfjár- og nautgripabúa, og þannig kunni framboð á innlendri vöru að dragast verulega saman næstu misserin með tilheyrandi áhrifum á fæðuöryggi. Þetta hangir allt saman. En eins og ég hef áður sagt þá skiptir máli að setja þessa vinnu af stað óháð því sem er fyrirliggjandi og við þurfum að fara í heildarskoðun á, sem snýst um grundvöll endurskoðunar búvörusamnings fyrir næsta ár. Það er stærra verkefni en það verður ekki hjá því komist (Forseti hringir.) að horfa sérstaklega til þessa aðkallandi vanda sem innlend framleiðsla stendur frammi fyrir.