Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni hversu mikill samhljómur hefur verið í nefndinni um þessa tillögu. Ég held að það sé vegna þess að Norðurlandaþjóðunum berst dýrmætur liðsauki í NATO ef af aðild Svía og Finna verður, það er engum blöðum um það að fletta. Við erum við þetta að fjölga þeim þjóðum innan bandalagsins sem leggja áherslu á jöfnuð og réttláta skiptingu til að koma í veg fyrir stríðsátök og deilur þjóða og vilja standa vörð um alþjóðlegar skuldbindingar og samninga milli þjóða sem okkur Íslendingum er auðvitað sérstaklega mikilvægt. Svíar og Finnar eru nú þegar í margvíslegu varnarsamstarfi við þjóðir NATO þó að formlega hafi þeir fylgt hlutleysisstefnu. Það fer ekki á milli mála að þessar þjóðir eiga mikla samleið með öðrum Evrópuríkjum í hugmyndafræðilegum efnum og þær aðhyllast einnig sömu grunngildi og nefnd eru í stofnsáttmála bandalagsins um lýðræði og friðarvilja.

Við í Samfylkingunni styðjum þess vegna þessa tillögu. Eins og ég sagði í fyrri umræðu viljum við greiða fyrir því að hún verði afgreidd hratt og örugglega. Þó að innan okkar raða í Samfylkingunni séu vissulega margir einlægir hernaðarandstæðingar og friðarsinnar erum við í flokknum öll miklir talsmenn þess að Íslendingar séu þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst samstarfi á vegum Evrópuþjóða. Frá stofnun Samfylkingarinnar hefur flokkurinn barist fyrir fullri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu og í mínum huga er þetta nátengt. Þetta kemur ekkert hvort í staðinn fyrir hitt. Það er ekki nóg að vera bara í NATO eins og stundum heyrist haldið fram af andstæðingum Evrópusambandsins. Þetta vita forystumenn Eystrasaltsþjóðanna sem hafa lagt mikla áherslu á aðild að báðum bandalögum. Í samtölum við Svía og Finna kemur svo glöggt í ljós að þessar umsóknarþjóðir tvær eru einnig á þeirri skoðun að þú þurfir á hvoru tveggja að halda og annað sé ekki nóg.

Herra forseti. Um þessar mundir stafar helsta ógnin við frið í Evrópu af framferði Rússa og ólöglegri innrás þeirra í Úkraínu. Það er mín skoðun að aðild að NATO tryggi öryggi þeirra þjóða sem búa við þessa ógn. Þessi aðild er frekar til þess fallin að koma í veg fyrir stríðsátök en ekki til þess fallin að auka líkurnar á þeim. Þetta er með öðrum orðum aðgerð sem stuðlar að friði og öryggi í þessum löndum. Það er mér því einstaklega ljúft að hvetja til þess að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.