Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Nú, þegar við horfum upp á stríðið í Úkraínu, innrás Rússa í Úkraínu, er kannski ekki úr vegi að velta aðeins upp nokkrum „hvað ef spurningum“. Hvað ef Vesturlönd hefðu tekið Rússlandi opnum örmum inn í hóp lýðræðisþjóða og hjálpað þeim að byggja upp öflugt velferðarsamfélag þegar járntjaldið féll og þannig náð að breiða út mannréttindi og lýðræði í Rússlandi? Það nefnilega mistókst. Það mistókst vegna þess að í staðinn var auðstéttinni hleypt lausri til að hagnast á falli Sovétríkjanna. Það byggðist upp ofurrík valdastétt sem aftur nærði Vladimír Pútín og fólkið í kringum hann til að byggja upp það ríki sem Rússland er í dag. Það er ekki hollt samfélag fyrir fólkið sem býr í Rússlandi. Það er ekki hollt samfélag fyrir fólkið sem býr nálægt Rússlandi. Um það eigum við orðið allt of mörg dæmi. Ég vil skrifa þetta á Vesturlöndin sem mistök sem voru dýrkeypt.

Við skulum ekki gleyma því að Íslendingar voru á meðal hrægammanna. Við þekkjum t.d. hvernig hægt var að rekja auð hluta útrásarvíkinga til Rússlands sem síðan nýttist til að byggja upp starfsemi sem má alveg segja að hafi að hluta valdið bankahruninu á sínum tíma hér á landi. En svo eigum við nýlegri dæmi, t.d. tengsl kjörræðismanns Íslands í Belarús, Alexanders Mosjenskís, við yfirvöld þar. Hann hefur verið uppnefndur sparibaukur forsetans Lúkasjenkós sem á móti er uppnefndur síðasti einræðisherra Evrópu og er afar handgenginn Vladimír Pútín. Rússland getur varpað sínum völdum yfir til Belarús og þannig haft slæm áhrif á svæðið í kringum sig og þessi ræðismaður Íslands virðist hafa hjálpað íslenskum fyrirtækjum að sneiða hjá viðskiptaþvingunum sem Rússland setti á Ísland í kjölfar þess að Ísland tók þátt í viðskiptaþvingunum vegna innrásarinnar í Krím.

Það er líka hægt að spyrja: Hvað ef Evrópa hefði ekki verið jafn sofandi og raun ber vitni varðandi orkuskipti? Það er komið dálítið vel í ljós að sofandaháttur á því sviði hefur hjálpað Vladimír Pútín að viðhalda völdum sínum vegna þess að Evrópa hefur verið svo háð því að kaupa olíu og gas þaðan. Hefði álfan verið miklu fljótari að skipta yfir í endurnýjanlega græna orkugjafa hefði Pútín ekki haft þetta tangarhald á álfunni öll þessi ár. Þá hefði mögulega verið tekið fastar í taumana eftir árásina og innlimun Krímskaga 2014 en þar var engan veginn brugðist nógu hart við. Ef við förum reyndar sex ár aftur í tímann, til þess tíma þegar Rússland réðist inn í Georgíu 2008, þá er það umhugsunarefni hvernig brugðist var við því. Það er kannski ekki hápólitískasta dæmið sem hægt er að taka, en rifjum það upp þegar úkraínska atriðið í Eurovision árið eftir innrásina í Georgíu vildi láta texta síns framlags deila á Pútín. Þá var þeim meinuð þátttaka vegna þess að ekki mætti troða pólitík inn í söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Þetta var meðvirkni með rússneskum stjórnvöldum á þeim tíma. Sofandahátturinn birtist líka í því að tveimur árum eftir innrásina í Georgíu samþykkti Atlantshafsbandalagið langtímastefnu bandalagsins þar sem Rússar voru samstarfsaðili. Landið sem tveimur árum áður hafði ráðist inn í Georgíu, nágrannaríki sitt, var samstarfsaðili NATO og á því varð engin efnisleg breyting fyrr en 2014 þegar af innrásinni og innlimun Krímskaga varð. Ég held ég láti þetta nægja um Pútín og hans aðkomu að málum.

Varðandi stöðu Svíþjóðar og Finnlands hljótum við öll að skilja þann þankagang sem á sér stað hjá stjórnvöldum, þ.e. að sækja um aðild að NATO. Það má kannski ekki heldur horfa fram hjá því að Svíþjóð og Finnland eru bæði mjög mikil hernaðarveldi. Svíar eru einhver mesti framleiðandi og útflytjandi hergagna í Evrópu og Finnland er síðan með einn sterkasta her í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Þetta eru lönd sem völdu áratugum saman að standa utan hernaðarbandalaga en sá meginstraumur umræðunnar snerist á örskotsstundu í báðum löndum. Það held ég að aðildarsinnar get þakkað Pútín. Hann knúði fram mikla hugarfarsbreytingu í báðum löndunum þannig að nú, í stað þess að telja hag sínum best borgið utan hernaðarbandalaga, hafa þau sótt um aðild að NATO. Ég verð að segja að mér þykir eftirsjá að báðum löndum úr hópi þeirra ríkja sem hafa talað hvað skýrast fyrir friðsamlegum lausnum og afvopnun á heimsvísu. Það hafa þau gert í krafti stöðu sinnar utan hernaðarbandalaga. Og þó að ég sé sannfærður um að ríkisstjórnir landanna muni ekkert hætt að setja þann kraft í málaflokkinn er ansi hætt við að móttökuskilyrðin breytist, að rödd þeirra á alþjóðavísu veikist. Og það er eftirsjá að því.

Svo má auðvitað ýmislegt segja um það hvernig umræðu var háttað í Svíþjóð og Finnlandi í aðdraganda þess að þingin beggja vegna samþykktu að sækja um aðild. Gagnrýnisraddir, sem alltaf eru hluti af eðlilegri lýðræðislegri umræðu, mættu miklu harðari andstöðu en í venjulegu árferði. Friðarsinnar til margra áratuga, sem hafa nú ýmsa fjöruna sopið, segjast aldrei hafa mætt öðru eins. Svo hefði náttúrlega verið ágætt að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá þá staðfestingu á þjóðarvilja sem birtist ágætlega í skoðanakönnunum. En við þekkjum það sennilega ríkja best hvað það geta verið langvinn sár sem fylgja því að sækja um aðild að NATO án þess að fara þá leið. En gott og vel. Niðurstaðan er fengin eftir þeim lýðræðislegu ferlum sem þessi lönd hafa og hún er afdráttarlaus og skýr. Finnland og Svíþjóð vilja inn í NATO og NATO er með þá stefnu að dyr bandalagsins standi opnar þeim sem um sækja. Þetta er það sem er kallað „open door policy“, með leyfi forseta, á ensku. Þó að Úkraína sjálf hafi reyndar fengið að finna það á undanförnum árum að dyrnar eru ekkert alltaf galopnar.

Við hljótum að þurfa að staldra aðeins við hvernig umræðan hefur síðan verið hjá verðandi samstarfsþjóðum Finna og Svía í NATO, eftir að þeir ákváðu að sækja um, og þá sérstaklega hvernig tyrknesk stjórnvöld hafa komið fram. Þegar fyrstu fréttir bárust af því að Finnland og Svíþjóð myndu sækja um var því fagnað af ráðherrum hérlendis, að mig minnir, með þeim orðum að þetta væru lönd sem pössuðu vel inn í bandalagið þar sem þau aðhylltust þau lýðræðislegu grunngildi sem bandalagið væri stofnað til að standa vörð um. Hvaða sameiginlegu lýðræðislegu gildi snýst NATO um ef Erdogan Tyrklandsforseti getur gert kröfu um mannréttindabrot af hálfu sænskra stjórnvalda til að borga fyrir aðgöngumiðann að NATO? Erdogan krefst þess í fúlustu alvöru að einstaklingum þjóðar sem býr við miklar ofsóknir í Tyrklandi en hafa fengið skjól í Svíþjóð verði vísað til baka til Tyrklands. Þetta setti hann fram sem eina af þeim kröfum sem Tyrkir þyrftu að sjá að orðið yrði við ef þeir ættu ekki að beita neitunarvaldi sínu til að halda Svíum og Finnum utan NATO. Að krefjast þess að Kúrdar sem hafa notið skjóls verði framseldir til Tyrklands í skiptum fyrir atkvæði greitt með aðildarumsókn, það er bara sjúkt og það sýnir innræti þess sem talar þannig. Ég hefði viljað heyra sterkari gagnrýnisraddir annarra bandalagsþjóða. Ég man t.d. ekki eftir því að hafa heyrt slíkt úr röðum ráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu gegn þessum kröfum Tyrklands, sama hversu fjarstæðukenndar og langsóttar og ólíklegar þær kunna að virðast. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu gegn þessu og segja skýrt að þessar systurþjóðir okkar þurfi ekki að gefa afslátt af mannréttindagildum sínum til að ganga í þennan klúbb með Íslandi.

Mig langar svo að nefna eitt atriði svona rétt í lokin þar sem Svíþjóð hefur farið fremst í flokki. Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum er nefnilega eins árs um þessar mundir og seinna í þessum mánuði verður fyrsti aðildarríkjafundur hans haldinn í Vínarborg. Sænsk stjórnvöld hafa einmitt í krafti þess að standa utan hernaðarbandalaga — við skulum ekki gleyma því að NATO er ekki bara hernaðarbandalag heldur kjarnorkubandalag — getað talað nokkuð sterkum rómi gegn kjarnorkuvígvæðingu í heiminum. Þegar núverandi ríkisstjórn var stofnuð þá var eitt af því sem stefnt var að að samþykkja lög um það að á sænskri grundu yrðu aldrei staðsett kjarnorkuvopn. Það var eitt af því sem sett var á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og verður áhugavert að sjá hvernig sænskum stjórnvöldum gengur að halda þeirri stefnu sinni skýrri og sterkri til streitu gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Reynslan hér á landi segir að það sé dálítið erfitt að stýra þessum málum. Verið er að útbúa Keflavíkurflugvöll þannig að hann geti verið heimavöllur fyrir B2-sprengjuflugvélar en það eru stærstu og dýrustu sprengjuflugvélar Bandaríkjahers og eru helst til þess hugsaðar að geta flutt kjarnavopn milli heimshluta. Í tengslum við það spurði ég hæstv. utanríkisráðherra um daginn hvernig stjórnvöld gengju úr skugga um að kjarnorkuvopnum yrði ekki komið fyrir á Íslandi. Þá fékk ég svarið, með leyfi forseta:

„Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við bandalagsríki sem búa yfir kjarnavopnum.“

Ég held, herra forseti, að það skíni í gegnum þetta svar ráðherrans að íslensk stjórnvöld hafa bara engin verkfæri til að fullvissa sig um að slík vopn séu ekki geymd hér á landi og fari ekki um flugvelli hér á landi. Vonandi ber Svíþjóð gæfa til að búa betur um hnútana þannig að kjarnorkuvígvæðingin nái ekki þangað inn fyrir landamærin.

Það er kannski ágætt, fyrst ég er að nefna þennan samning, að minnast á að á þessum aðildarríkjafundi sem haldinn verður um samning Sameinuðu þjóðanna, um bann við kjarnorkuvopnum, nú í lok mánaðar hefur fulltrúum allra ríkja verið boðið, hvort sem þau hafa fullgilt samninginn eða ekki, og ríki geta sent áheyrnarfulltrúa. Það mun Svíþjóð gera en það munu líka Noregur og Þýskaland gera, ríki sem eru innan kjarnorkubandalagsins NATO. Það mun Ísland hins vegar ekki gera og ég vil enn og aftur biðla til íslenskra stjórnvalda að mæta alla vega og eiga samtalið við ríki um það hvernig við getum gert allt sem í okkar valdi stendur til að vinna bug á kjarnorkuvígvæðingu í heiminum. Þó að íslensk stjórnvöld setji meginþungann á NPT-samninginn í baráttunni gegn kjarnorkuvopnum þá verðum við að leggja lóð okkar á allar vogaskálar, hverja eina og einustu, þó að það samrýmist kannski ekki þröngum kjarnorkuvarnarhagsmunum NATO. Við þurfum að standa með öllum þessum samningum vegna þess að ef það er eitthvað sem innrás Rússa í Úkraínu hefur kennt okkur þá er það það að við þurfum að losna við þessi gjöreyðingarvopn úr höndum brjálæðinga sem svífast einskis. Því miður skila íslensk stjórnvöld allt of oft auðu í því.