Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég skal hafa þetta stutt til að liðka fyrir þingstörfum, enda er þetta nokkuð borðleggjandi mál sem við ræðum hér. Ég vildi nota tækifærið til að færa hv. utanríkismálanefnd þakkir fyrir það hvernig hún hefur haldið á þessu máli, leyst það hratt og vel í mikilli samstöðu og eindrægni og það væri óskandi að slík eindrægni birtist líka af hálfu ráðherra ríkisstjórnarinnar en það hefur vantaði aðeins upp á það, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu um þessa tillögu. Þá verður manni hugsað til tilvitnunar í John Maynard Keynes, hinn þekkta hagfræðing, sem sagði: Þegar staðreyndirnar breytast, þá skipti ég um skoðun. Hvað gerir þú, herra minn? Eða kannski í þessu tilviki: Hvað gerir þú, frú mín? Ég hefði talið að við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í Evrópu og raunar í heiminum í dag væri tilefni til að endurskoða afstöðuna til aðildar Íslands að NATO og sýna sama stuðning við þá aðild eins og við munum nú sýna Svíum og Finnum hvað varðar aðild þeirra.

En þetta eru söguleg tíðindi. Það verður ekki fram hjá því litið. Þegar maður lærði um Finnland til að mynda í grunnskólanum í gamla daga þá minnist ég þess að það var útskýrt að í Finnlandi væru mörg vötn, þeir framleiddu mikinn pappír og þeir væru ekki í NATO. Nú er þetta að breytast en Finnar reyndar framleiða enn mikinn pappír og ég nota tækifærið til að hvetja hæstv. forseta til að nota meiri pappír hér á Alþingi því að það er gott fyrir umhverfið. Finnar gróðursetja tíu tré a.m.k. fyrir hvert tré sem er fellt til pappírsframleiðslu. En nú er ég kominn út fyrir efnið en þó ætla ég að leyfa mér að nefna eitt annað mál sem er algjörlega út fyrir efnið en ég geri það vegna þess að því hefur á einhvern furðulegan hátt verið blandað inn í þessa umræðu um NATO, og það er Evrópusambandið. Evrópusambandsaðild hefur ekkert með aðild að NATO að gera. Frammistaða Evrópusambandsins í varnarmálum hefur undanfarna áratugi ekki verið sérstaklega gæfuleg. Sambandið hefur í um 20 ár talað um mikilvægi þess að búa til einhvern sameiginlegan Evrópuher. Það var alltaf lítið gert úr því þegar andstæðingar Evrópusambandsaðildar á Íslandi bentu á þetta, að Evrópusambandið hefði áhuga á hervæðingu og það var nú stundum jafnvel sagt fráleitt að með aðild að ESB væru Íslendingar að ganga í einhvern Evrópuher, en nú allt í einu er þetta nefnt sem ein af ástæðunum fyrir því að við þurfum að ganga í ESB, að þeir séu að taka upp þráðinn með eigin hervæðingu. Aðalatriðið er að þetta eru algjörlega óskyld mál, til hliðar við þessi merku tíðindi sem nú eru að verða með inngöngu Svía og Finna í NATO og þar með þátttöku allra Norðurlandaþjóðanna í því varnarbandalagi. Það er ástæða til að fagna því og óska nágrönnum okkar og vinum og frændfólki til hamingju með þessa þróun mála og ég efast ekki um að bæði þessi lönd verða mjög mikilvægir og gagnlegir samstarfsaðilar og bandamenn í NATO.

Að lokum ítreka ég þakkir til utanríkismálanefndar og raunar þingsins alls fyrir hvernig haldið hefur verið á þessu máli.