Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að árétta eindreginn stuðning okkar í Viðreisn við þessa tillögu um leið og ég vil innilega þakka formanni nefndarinnar og allri nefndinni fyrir afbragðsvinnubrögð, eindrægni og ótvíræða samstöðu í þessu máli. Mér finnst það einmitt skipta máli að við sendum út þessa tóna þegar við ræðum um jafn mikilvægt mál og þetta er, þegar vinaþjóðir okkar hafa tekið þá afstöðu að ganga til liðs við varnarbandalagið sem NATO er. Og af því að hér hefur verið talað um friðarsinna þá vil ég undirstrika það að í Viðreisn eru allir friðarsinnar og m.a. þess vegna er Viðreisn eindreginn stuðningsaðili þess að Íslendingar séu fullir þátttakendur í NATO. Við erum stolt af því að við höfðum framsýnt forystufólk á sínum tíma, árið 1949, sem lét ekki hræðsluáróður til að mynda sósíalista fæla sig frá því að vera þátttakendur og sitja við borðið allt frá upphafi í þessu, að mínu mati, friðarbandalagi sem NATO er. Þá voru m.a. fullyrðingar um það að við værum hugsanlega að missa hluta af okkar fullveldi. Hvað hefur gerst? Þvert á móti hefur það styrkt okkar fullveldi, með fullri þátttöku í NATO, með skoðun í NATO, með þátttöku í því sem við getum gert, sem herlaus þjóð sem við eigum að vera að sjálfsögðu áfram. Við getum lagt ýmislegt til málanna í gegnum borgaralega þjónustu, borgaraleg störf, hvort sem það er í gegnum leiðsögn varðandi flug eða einfaldlega borgaraleg framlög eins og við höfum sýnt í gegnum tíðina.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu blasir við algerlega ný staða í stjórnmálum og við sjáum það af viðbrögðum á Norðurlöndunum sem þessi tillaga gengur út á, sem eru mjög skýr. Danir hafa því til viðbótar samþykkt, og kannski með enn stærri meiri hluta heldur en margir hverjir, m.a. í þessu húsi, voru að spjalla um og gerðu ráð fyrir, það voru 67% Dana sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að hefja nú að fullu þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Í Noregi er kallað eftir frekari umræðum um aðild að ESB. Fólk er að ræða Evrópusambandið, eðlilega, ég kem að því á eftir. Það er ekkert óeðlilegt að t.d. formaður Miðflokksins, sem er eindreginn andstæðingur Evrópusambandsins og þátttöku okkar Íslendinga þar, kunni ekki við að við tengjum m.a. samstarf við ESB við það að efla og styrkja varnir. En ég hef lýst því áður og sagt það áður af hverju ég telji svo vera og ég ætla að koma aðeins inn á það á eftir. Hvað hafa Norðmenn líka gert fyrir utan það að ræða frekar á hinum pólitíska vettvangi um aðild að ESB? Þeir hafa líka tekið skref í áttina að efla þeirra varnir, dýpka samstarfið við Bandaríkin til þess að tryggja, eins og þeir hafa sagt sjálfir og er hægt að lesa á heimasíðu ríkisstjórnarinnar norsku, fullveldi þeirra og sjálfstæði og tryggja varnirnar. Ekkert af þessu hefur verið gert hér. Hvað erum við að gera hér? Við erum að tryggja og taka þátt í lágmarksframlagi sem við Íslendingar getum gert þegar kemur að innrásinni í Úkraínu og afleiðingum hennar, að styðja við okkar vinaþjóðir, Svía og Finna, sem sækja nú um aðild að NATO. En hvaða annað frumkvæði til þess að efla varnir höfum við tekið? Hvernig höfum við farið í það að dýpka enn frekar umræðu um það hvernig við getum treyst varnir okkar hér heima? Ég nefni netárásir og að útvíkka til að mynda varnarsamninginn við Bandaríkin til þess að hann nái til fleiri sviða heldur en þessara hefðbundnu sviða sem hafa verið ákveðin í áranna rás og mótast auðvitað af því umhverfi sem var 1951. Hann hefur vissulega verið uppfærður að einhverju leyti en tekur að mínu mati ekki til þess nútíma sem við blasir. Ég hefði viljað sjá frumkvæði af hálfu ríkisstjórnarinnar til að fara í samtal við NATO um það hvernig við getum aukið borgaralega aðstoð okkar og framlög innan NATO, líka hvernig við getum víkkað út varnarsamninginn og hvernig við getum a.m.k. átt samtal um það hvernig og hvort aðild að ESB geti líka treyst varnir okkar Íslendinga. En auðvitað er það viðkvæmt við ríkisstjórnarborðið að fjalla um að styrkja varnir Íslands. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er kannski ekki heppilegt fyrir forystuflokkinn í ríkisstjórn að varnir okkar verði efldar og styrktar bæði í gegnum NATO og í gegnum Bandaríkin, þegar stefna Vinstri grænna er með þeim hætti sem hún er. Ég skil vel að það er viðkvæmt en það er engu að síður umhugsunarefni að allar aðrar þjóðir eru með einhverjum hætti að styrkja varnir sínar með auknu samtali og ekki síst markvissu samstarfi sín á milli, hvort sem það er innan ESB, innan NATO eða í tvíhliða samningum eins og Norðmenn eru að gera við NATO. Ég hefði kosið að það frumkvæði kæmi frá ríkisstjórninni. Ég vil líka geta þess að það er hægt að skoða þingsályktunartillögu okkar Viðreisnar sem kemur einmitt inn á það að styrkja varnir okkar.

Ég vil benda á það að á sínum tíma, eftir að varnarliðið fór, var gerð áhættumatsskýrsla sem m.a. dró fram að samstarf við ESB myndi styrkja stöðu okkar á sviði varnar- og öryggismála. Í þessari þverfaglegu áhættumatsskýrslu sem stjórnvöld létu gera eftir brotthvarf varnarliðsins var sérstaklega mælt með samstarfi Íslands við Evrópusambandið þar sem landið stæði frammi fyrir áhættuþáttum, ekki ósvipuðum þeim sem eru í öryggisstefnu ESB. Þessi meðmæli eiga líka við í dag og ef eitthvað er þá eiga þau mun meira við í dag. Langflest Norðurlöndin og evrópsk nágrannaríki Rússlands gera sér grein fyrir nákvæmlega þessu mikilvægi sambandsins fyrir lýðræði og mannréttindi, sem upphaflega var einmitt stofnað til að viðhalda friði. Það var stofnað m.a. fyrir hvata og tilstuðlan Bandaríkjamanna, sem sögðu: NATO eitt og sér dugar ekki heldur verðum við líka að sjá bandalag Evrópuríkja þar sem þau taka svolítið utan um hlutina sjálf til að tryggja frið. Síðan kemur náttúrlega friðurinn m.a. í gegnum efnahagslegt samstarf, opna markaði og fleira. En grunnurinn að Evrópusambandinu er að varðveita frið í álfu sem þekkir allt of mikið og sorglega hörmulegar afleiðingar stríðs. NATO og ESB eru í mínum huga tvær hliðar á sama friðarpeningi. Þessi áhættumatsskýrsla á sínum tíma dró fram að öryggi okkar myndi njóta góðs af virkari þátttöku innan bæði ESB og varnarsamstarfsins sem þar er. Það var hnippt í mig áðan og ég minnt á það að helstu andstæðingar Evrópusambandsins hér á sínum tíma gerðu mikið grín að því að Evrópusambandið væri að huga að her. Þá var varað við því að fara í Evrópusambandið af því að það væri líka orðið hernaðarsamstarf. Það var sagt hér á þingi. Það hefur hefur verið sagt á fundum og víða. Nú er búið að draga í land. Fólki finnst greinilega óþægilegt að ræða nákvæmlega þessar hliðar á Evrópusambandinu, ekki bara hina efnahagslegu hlið og félagslegu heldur líka hvað það þýðir fyrir okkur að stuðla að því að standa vörð um þessi gildi sem við teljum að árásin í Úkraínu sé líka árás á. Árásin á Úkraínu var fyrst og fremst árás á íbúa Úkraínu og þetta er hörmulegt fyrir þá og við erum að upplifa núna mannréttindabrot af hálfu Rússa á hverjum einasta degi. En þetta var líka árás á gildi okkar um frelsi, frið, lýðræði og mannréttindi. Nágrannaþjóðir Rússa svara slíkri árás með því að leita bæði til NATO og Evrópusambandsins. Pólverjar gerðu það á sínum tíma með góðum árangri og það sama gildir um mjög skýra afstöðu og svar Eystrasaltsríkjanna sem vildu fara þessa leið.

Það sem ég er að tala fyrir líka samhliða þessu máli, sem er gríðarlega mikilvægt og það er ánægjulegt að fá að vera hér í þingsalnum og fá að tala um að styðja við inngöngu Finna og Svía í NATO, er að þessi tillaga dregur um leið fram að það er ekkert frumkvæði af hálfu íslenskra stjórnvalda að taka skref í átt til þess að efla enn frekar varnir okkar Íslendinga og styrkja enn frekar stöðu okkar í Evrópu. Ég er sannfærð um það að staða smáþjóðar eins og Íslands er sterkari í öflugu samfélagi og bandalag þjóða heldur en að vera ein og sér. Ég held að við verðum einfaldlega að skoða hvaða hreyfing er núna á ferðinni í Evrópu og alla vega fá tækifæri eins og við höfum mjög hófleg sagt — það má alveg gagnrýna okkur í Viðreisn fyrir að við segjum ekki hér og nú og það eigi að sækja um nú þegar. Ég myndi vilja það. En ég geri mér grein fyrir þeirri stöðu sem ríkisstjórnin er í og ég geri mér líka grein fyrir því að við þurfum að stuðla að enn frekari umræðu um það hvað Evrópusambandið og aðild að því hafi í för með sér. Þess vegna biðjum við einfaldlega um að það verði gerð skýrsla og hún þarf ekki að taka langan tíma. Hér er hæstv. umhverfisráðherra í salnum og ég vil hrósa honum fyrir það einmitt að hafa beitt sér fyrir svonefndri grænni skýrslu í umhverfismálum, mjög skýrt plagg sem tók ekki langan tíma að vinna. Tækifæri, kostir og gallar og staðan eins og hún er á sviði umhverfismála í svonefndri grænni skýrslu. Við erum einfaldlega að draga þetta fram: Af hverju getum við ekki farið og tekið fyrsta skrefið í því að meta hvað það þýðir fyrir íslenska þjóð að eygja möguleika á því að verða aðili að Evrópusambandinu? Hvað þýðir það ekki bara í efnahagslegu og félagslegu tilliti heldur líka varnarlega og öryggislega séð? Danir hafa svarað að vissu leyti með því að vilja verða fullir þátttakendur. Nágrannaríki Rússlands hafa svarað þessu mjög skýrt með því að vilja vera fullir þátttakendur á báðum sviðum. Ég tel að við eigum að feta svipaðar slóðir og við eigum að taka þessu af fyllstu alvöru, mæta þessu hér heima með því að stíga skref fram á við, ekki bara að setja pottlokið ofan á umræðuna, pottlok ofan á stöðuna eins og hún er í dag. Ég tel reyndar að það sé stórvarasamt fyrir okkur Íslendinga ef við ætlum ekki að hreyfa við einu eða neinu af því ríkisstjórnin er samansett eins og hún er núna. Við vitum að það er viðkvæmni við ríkisstjórnarborðið, eins og ég gat um áðan. Ég er sannfærð um það að við hefðum séð fleiri skref tekin á sviði varnarmála, til að mynda í samstarfi við Bandaríkin og NATO, ef samsetning ríkisstjórnarinnar væri ekki eins og hún er. Það er einfaldlega þannig.

Að því sögðu vil ég undirstrika að það eru áskoranir fram undan. Það eru áskoranir fyrir okkur sem viljum hreyfa við hlutum í þágu lýðræðis, í þágu frelsis, í þágu mannréttinda og í þágu varna landsins. Þá þurfum við að halda áfram og skoða og meta hvaða leiðir eru bestar fyrir okkur Íslendinga á sviði varnar- og öryggismála og hvaða leiðir eru bestar fyrir okkur Íslendinga á sviði efnahags- og viðskiptamála, umhverfismála, auðlindamála og til að tryggja borgaraleg réttindi. Þetta allt þurfum við að fara yfir en það er ekkert að gerast í þeim efnum hjá ríkisstjórninni nema núna þessi mikilvæga tillaga sem við erum að ræða, þessi sjálfsagða tillaga sem liggur hér fyrir um að styðja eindregið við umsóknir Finna og Svía um aðild að NATO. Þær umsóknir styðjum við í Viðreisn svo sannarlega því að það er í þágu friðar, frelsis og lýðræðis.