Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[15:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel þingsályktunartillögu þessa um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar vera mjög mikilvægt skref til að styrkja Atlantshafsbandalagið, NATO. Ég fanga því líka að bæði þessi ríki séu að sækjast eftir aðild að þessu mikilvæga bandalagi. Það mun auka norrænt samstarf á allan hátt í varnarmálum og hin norræna vídd mun koma sterk inn í Atlantshafsbandalaginu. Þetta verður væntanlega samþykkt einróma hér á Alþingi sem er fagnaðarefni. Ég vil minna á að þetta er Norður-Atlantshafssamningurinn sem hér er undir. Vissulega eru Evrópuríkin þar í miklu meiri hluta en það eru tvö ríki vestan hafs, Bandaríkin og Kanada, og langöflugasta ríkið er Bandaríkin. Þetta er að mörgu leyti samningur þar sem Bandaríkin ábyrgjast öryggi í Evrópu. Þetta sýnir líka mikilvægi varnarsamningsins fyrir okkur á allan hátt. Dæmi um mikilvægi Bandaríkjanna í þessu samstarfi er að ríki sem er boðin aðild eiga að senda staðfestingarskjalið til ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku, svo það liggi alveg fyrir.

Vissulega er búið að tala um Evrópuþjóðirnar og mikilvægi Evrópusamstarfsins í öryggismálum, sem er fagnaðarefni, en það hefur einmitt verið vandamál hversu lítið Evrópuþjóðir hafa lagt af mörkum. Þær hafa ekki staðið við 2% regluna, þ.e. sett 2% af þjóðarútgjöldum sínum til varnarmála, og þar hefur helst verið gagnrýni á Þýskaland sem er langöflugasta ríki Evrópu. En það er vonandi eitthvað að breytast núna í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu og væntanlega munu önnur ríki taka við sér. En þetta er fyrst og fremst samningur ríkjanna við Norður-Atlantshaf. Og jú, það má alveg ræða um mikilvægi aðildar að Evrópusambandinu en það má ekki horfa fram hjá því að Bandaríkin eru langöflugasta ríkið og það eru þau sem ábyrgjast öryggi okkar.

Það má líka benda á að 5. gr., sem er allir fyrir einn og einn fyrir alla, að á árás á eitt ríki sé árás á öll ríkin, þar á meðal Ísland, hefur aðeins einu sinni verið virkjuð í sögunni og það var eftir árásina 11. september 2001. Það var árás á Bandaríkin. Það var ekki árás á Evrópuríki. Við þekkjum þá sögu öll og hvernig var brugðist við og Bandaríkjamenn fóru frá Afganistan eftir 20 ára dvöl í því landi.

Það er óþarfi að fjölyrða um ríkin, Svíþjóð og Finnland. Þetta eru miklar vinaþjóðir okkar og nánustu samstarfsríki Íslands. Svíþjóð sem er óháð ríki er með öflugan her og hefur verið með síðan 1814 eftir Napóleonstyrjaldirnar, með öflugan hergagnaiðnað, framleiðir orrustuþotur, kafbáta og alls kyns vopn. Finnar hafa mjög öflugan her líka. Ég sá einhverjar tölur í frétt um að þeir gætu kallað á hátt í 200.000 manns með varaliði. Ég heyrði líka í fréttum að það verða ekki byggð einhver hernaðarmannvirki á vegum NATO, alla vega ekki í bráð. Þeir hafa þessa baktryggingu núna með NATO eftir árás Rússlands í Úkraínu. Ég held að sú árás muni gjörbreyta öllu landslaginu hvað varðar öryggismál í landinu og við skulum vona að þetta mál vegna Tyrkja, sem hafa verið andsnúnir aðild þessara ríkja út af Kúrdum, út af stuðningi stjórnvalda Finnlands og Svíþjóðar við Kúrda, leysist fljótt. Tyrkland er ekki heldur í Evrópusambandinu.

Það sem mér finnst áhugavert varðandi þróun varnarsamningsins og samstarfsins við NATO eru netvarnirnar. Nú lifum við á tímum upplýsingabyltingarinnar og ég þykist vita að sú vinna sé hafin að efla netvarnir og þar sé kannski möguleiki að Íslendingar sjálfir geti lagt af mörkum sem herlaus þjóð. En það er alveg klárt mál að það er þar sem varnir Íslands skipta mjög miklu máli, nú og í framtíðinni. Það ætti þá jafnvel að vera viðbót við varnarsamninginn og ég veit að það er einhver vinna í NATO um þetta sem ég þekki ekki alveg nægilega vel.

Mig langar að lesa úr inngangsorðum Atlantshafssáttmálans þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðilar samnings þessa lýsa yfir að nýju tryggð sinni við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir. Þeir eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinni, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu, er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti. Þeir leitast við að efla jafnvægi og velmegun á Norður Atlantshafssvæðinu. Þeir hafa ákveðið að taka höndum saman um sameiginlegar varnir og varðveizlu friðar og öryggis. Þeir hafa því orðið ásáttir um Norður-Atlantshafssamning þennan.“

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þetta mikið lengra. Flokkur fólksins fagnar þessari aðild og við styðjum hana heils hugar. Við teljum þetta bera vott um það að hin norræna vídd muni aukast innan Atlantshafsbandalagsins og það verður fróðlegt að fylgjast með samstarfi Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum innan NATO og hér í Norður-Atlantshafi. Ég vil benda á að Norðurlöndin eru frá Grænlandi, sem á landamæri að Kanada, og að Finnlandi sem á 1.300 km landamæri að Rússlandi.

Ég geri ráð fyrir að þetta verði samþykkt einróma og það verður spennandi að sjá framtíðina með þessum öflugu þjóðum innan Atlantshafsbandalagsins.