Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

um fundarstjórn.

[16:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um ósk um svör frá hæstv. forseta. Mig langar líka að benda á það sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sagði fyrr í dag sem er að það hefur komið mjög skýrt fram hvers vegna Útlendingastofnun neitar að afhenda þinginu umbeðnar umsóknir til ríkisborgararéttar. Það hefur komið fram í skriflegu svari frá Útlendingastofnun að það sé vegna þess að þingið taki hvort eð er ekki mark á því sem Útlendingastofnun segir í umsögnum sínum um hvað þeim finnist rétt að gera þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar. Þetta er mjög skýrt, virðulegi forseti. Útlendingastofnun ætlar að hætta að vinna með þinginu vegna þess að Útlendingastofnun er ósátt við þær ákvarðanir sem þingið tekur varðandi ríkisborgararétt, þingið sem hefur valdið samkvæmt lögum til að veita ríkisborgararétt. Það er auðvitað óforskammað, virðulegi forseti, að undirstofnun í dómsmálaráðuneytinu telji sig geta verið með uppsteyt vegna þess að þau eru ósammála þeim ákvörðunum sem Alþingi tekur.