Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:23]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á þeim hörmungartímum sem ganga yfir heiminn er ýmislegt sem breytist. Þess vegna hafa okkar ágætu vinir og nágrannar, Finnar og Svíar, tekið ákvörðun um að ganga til liðs við okkur og aðrar þjóðir í NATO. Við í Framsókn styðjum það að sjálfsögðu. Við bjóðum þá velkomna til starfa í NATO, það mun styrkja hina norrænu vídd í Atlantshafsbandalaginu. Ég hef komið þessum sjónarmiðum á framfæri við systurflokka mína og síðast á fundi með sveitarstjórnarráðherra í Svíþjóð í síðustu viku en þar er þetta mál meira og minna á dagskrá þangað til það verður yfirstaðið. Ég vil bara koma hingað upp og lýsa mikilli velþóknun á því að Svíar og Finnar hafi tekið þessa ákvörðun. Það er þeirra sjálfstæði réttur sem við virðum. Við getum á móti tekið því sérstaklega vel og það gerum við í dag.