Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er skýr vilji Finna og Svía að sækja um aðild að NATO. NATO er með þá afdráttarlausu stefnu að dyr bandalagsins standi umsóknarríkjum opnar. Ég virði sjálfsákvörðunarrétt ríkjanna en styð ekki stækkun hernaðarbandalaga og mun því ekki greiða atkvæði með þessari tillögu. En innan þingflokks Pírata rúmast ýmsar skoðanir þannig að ég reikna með því að við verðum þvers og kruss. Ég get ekki sleppt því að nefna hér þá fráleitu kröfu Erdogans Tyrklandsforseta að Kúrdar, sem hafa notið skjóls í Svíþjóð, verði framseldir til Tyrklands í skiptum fyrir atkvæði greitt með aðildarumsókn. Við getum ekki leitt hjá okkur svona grófar kröfur um mannréttindabrot. Íslensk stjórnvöld verða að taka skýra afstöðu gegn þessum kröfum Tyrklands og standa þannig með þeim grunngildum mannréttinda sem við deilum með nágrannaþjóðum okkar.