Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

715. mál
[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er í sjálfu sér á margan hátt söguleg atkvæðagreiðsla og mikil tímamót í utanríkismálum að þessar nánu vinaþjóðir okkar sjái ástæðu til að sækjast eftir aðild. Það er í mínum huga meira en sjálfsagt mál að sýna samstöðu með þeim og virða þeirra vilja til að ganga í Atlantshafsbandalagið. Ég sé ekki annað en að með því sé mjög breiður stuðningur hér á þinginu. En þetta eru, eins og ég segi, mikil tímamót sem við hljótum á sama tíma að láta okkur verða tilefni til þess að spyrja hvort við séum í einu og öllu búin að bregðast við og leggja mat á þær breytingar sem verða tilefni til þessara sögulegu tíðinda. Það bíður okkar svona í framhaldi af þessu. Fram til þessa (Forseti hringir.) höfum við fyrst og fremst sýnt stuðning í verki og samstöðu en við verðum líka að láta þessa atburði alla verða okkur tilefni til þess að líta inn á við.