Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:58]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Bæta aðgengi, bæta húsnæði, auka menntun fagaðila í geðheilbrigðisþjónustu — allt eru það mikilvæg atriði. Ég held að þetta atriði, hvað varðar húsnæði, sé ekkert minna mikilvægt en annað, ég er alveg sammála því. Við höldum kannski áfram að tala um að til séu grá svæði og jafnvel svört en með samþættingu þjónustu sveitarfélaga og ríkisins getum við kannski, svo að ég tali um það áfram, fundið lausn á þessu vandamáli. Húsnæðisvandinn er alveg jafn stór og hver annar og við erum núna að glíma við það sama á fleiri stöðum en í geðheilbrigðisþjónustunni. Lýsing hv. þingmanns á aðstæðum þeirra sem eru í nauðungarvistun — ég trúi henni alveg og við þurfum bara að bæta úr ástandinu. Það er sorglegt að heyra svona fréttir. Vonandi getum við bætt úr þessu. Það er líka framtíðarmúsík sem við þurfum að spila fyrir okkur öll og inn í framtíðina.