Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg um þessa skýrslu. Þetta er nú býsna merkileg skýrsla, það verður að segjast alveg eins og er. Ég ætla að leggja út af henni en líka að undirstrika ákveðna þætti hennar með því að vitna til hennar með beinum hætti. Það er ansi margt í henni sem kallar á öfluga umræðu hér í þingsal og að sjálfsögðu áframhaldandi vinnu stjórnvalda á næstu árum því að skýrslan er dökk. Fyrir örfáum klukkustundum stóð hæstv. fjármálaráðherra í þessum stól og svaraði óundirbúinni fyrirspurn. Þá heyrðist enn og aftur mantran um að vandi heilbrigðiskerfisins væri einhverjum allt öðrum að kenna en þeim sem hafa farið með stjórn landsins árum og jafnvel áratugum saman. Vandi kerfisins er ekki þeim sem stjórnað hafa landinu að kenna heldur einhverjum óútskýrðum mönnunarvanda sem virðist hafa fallið í fangið á ríkisstjórninni. Það er stundum talað eins og ríkisstjórnin sé einhver saklaus þolandi þessarar atburðarásar. Einhver vondur mönnunarvandi virðist hafa komið utan úr geimnum. Það er stóra vandamálið. Svoleiðis rökfræðilegir loftfimleikar leiða síðan fólk til að draga þá ályktun að stjórnvöld ætli sér að komast undan ábyrgð á málinu, þetta sé einfaldlega einhver mönnunarvandi.

Það er verulegt áhyggjuefni að heyra þessar skýringar því að í þessu felst verulegur ábyrgðarflótti. Þau starfsskilyrði sem fólk býr við á spítalanum og í heilbrigðiskerfinu eru á ábyrgð stjórnvalda. Ef hjúkrunarfræðingar, læknar, eða eftir atvikum aðrar stéttir, vilja ekki vinna við það sem þau eru menntuð til vegna álags eða starfskjara þá er það á ábyrgð þess fólks sem mótað hefur stefnuna og framfylgt henni árum saman. Þetta á við um kerfið allt og ekki síður geðheilbrigðisþjónustuna sem við ræðum hér út frá þessari afbragðsskýrslu Ríkisendurskoðunar sem var til umfjöllunar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og nefndarmenn tóku það alvarlega að fara vel ofan í hana. Þetta er ekki dökk skýrsla eða svört skýrsla. Þetta er kolsvört skýrsla. Hún er algjör falleinkunn yfir stjórnvöldum og þeim flokkum sem stýrt hafa landinu árum saman. Þrír flokkar hafa starfað saman í fimm ár og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur enn lengur á undan því. Við vitum alveg hvar ábyrgðin liggur og ábyrgðarflótti er því ekki í boði þegar við ræðum þessa skýrslu. Það á ekki síst við um þennan svokallaða mönnunarvanda.

Við ætlum að grípa orðrétt niður í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Notendur geðheilbrigðisþjónustu búa margir við stórskert aðgengi að þjónustunni. Biðlistar eru landlægir og eru sumir mældir í misserum og árum. Helst má skýra langa bið eftir þjónustu með skorti á sérhæfðu starfsfólki og viðeigandi úrræðum en einnig eru vísbendingar um að í kerfinu sé hvati til að vísa erfiðum málum frá og komast þannig hjá kostnaði.“

Talað er um að löng bið eftir þjónustu geti aukið á vanda fólks sem þarf á þjónustu að halda og að kostnaðurinn aukist verulega sem er kannski þvert á það sem á að vera leiðarstef. Svo kemur skýrt fram í skýrslunni að vöntun á geðhjúkrunarfræðingum standi geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst á spítalanum, fyrir þrifum og að mikill skortur sé líka á geðlæknum. Samkvæmt óformlegu mati Landspítala, og nú er ég að vitna til skýrslunnar, vantar geðþjónustu spítalans a.m.k. 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, tíu sérmenntaða geðhjúkrunarfræðinga og tíu geðlækna ásamt fleira fagfólki. Skýrslan er því dökk þegar sá mönnunarvandi er krufinn. Ég ætla að ítreka: Sá vandi er á ábyrgð þeirra sem með völdin hafa farið á undanförnum árum, skuldlaust. Það er á ábyrgð stjórnvalda að skapa manneskjuleg skilyrði fyrir starfsfólk, skapa það umhverfi að það laði öflugt fólk til starfa, skapa þá tekjumöguleika að hæft fólk vilji vinna við að hjálpa alvarlega veiku fólki með geðrænan vanda. Undan þessu verður ekkert komist. Mönnunarvandinn er ekkert eins og einhverjar náttúruhamfarir sem skyndilega og fyrirvaralaust bresta á. Hann er mannanna verk og það skiptir höfuðmáli, ef við ætlum að koma málum betur fyrir, að hann verði leystur hratt, vel og örugglega. Ég ætla að leyfa mér að vera dramatískur og segja að mannslíf séu í húfi og að íslenskur almenningur geri þá réttmætu kröfu að stjórnvöld á hverjum tíma fái ekki falleinkunn í svona skýrslu. Skýrslan undirstrikar að mönnunarvandinn er mannanna verk og það eru menn sem bera ábyrgð á því hvar kerfið er statt eins og svo rækilega er opinberað í skýrslunni.

Það er verið að rekja það í skýrslunni hversu úrræðalítil stjórnvöld hafa verið í þessum efnum og ekki síst þegar kemur að menntun heilbrigðisstarfsfólks. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur að heilbrigðisráðuneyti þurfi að huga betur að nýliðun og menntun fagfólks í þessum stéttum og gæta þess að starfsaðstæður og -umhverfi fæli ekki fólk frá því að vinna á þessum vettvangi. Samhliða því þarf að skoða hvernig megi nýta krafta geðlækna betur m.a. með aukinni teymisvinnu, ráðgjafarþjónustu sjálfstætt starfandi lækna og eflingu annarra fagstétta sem sinna geðheilbrigði.“

Þetta undirstrikar auðvitað það sem ég er að segja. Starfsumhverfið er búið til af þeim sem bera ábyrgð á kerfinu. En ég ætla ekki að tala meira um mönnunarvandanum heldur að fara yfir í annað og vísa aftur í óundirbúinn fyrirspurnatíma frá því fyrr í dag. Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra að sérstakt átak hefði verið gert í geðheilbrigðismálum á liðnum árum og þetta er líka það sem þingmenn og ráðherrar VG keyrðu mjög á í kosningabaráttunni síðast, að farið hefði verið í sérstakt átak í geðheilbrigðisþjónustu. Skýrslan sem við ræðum hér í dag segir okkur auðvitað mjög skýrt að þrátt fyrir fögur fyrirheit og mikinn fagurgala fyrir kosningar þá er niðurstaðan önnur. Ég ætla að telja hér upp nokkur atriði í fljótheitum. Samkvæmt skýrslunni eru biðlistar landlægir og gráu svæðin svokölluðu stórt og mikið vandamál þar sem ekki er ljóst hver ber ábyrgð á að veita tiltekna þjónustu. Það skortir mikið upp á að upplýsingum sé safnað saman og haldið utan um þær til að efla möguleika og greiningu á vanda. Ég vil þar vekja sérstaka athygli á því að það vantar tölulegar upplýsingar um beitingu þvingana og nauðungarvistunar við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þessar upplýsingar eru ekki tiltækar og svo skortir yfirsýn yfir málaflokkinn, það er ein setning í skýrslunni. Ef þetta er staðan þá veltir maður því fyrir sér hvernig menn geta talað um að eitthvert átak hafi staðið yfir á liðnum árum í geðheilbrigðismálum.

Ég vil í þessu samhengi líka vitna orðrétt í álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem var mjög samstiga í vinnu sinni, bæði stjórnarmeirihluti og stjórnarandstaða, þegar skýrslan var til umfjöllunar í nefndinni.

„Eftirspurn og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu eykst ár frá ári innan heilbrigðiskerfisins. Geta stjórnvalda til að tryggja nauðsynlega þjónustu er undir væntingum og bið eftir þjónustu almennt of löng og ekki í samræmi við markmið stjórnvalda. Skortur er á yfirsýn í málaflokknum og nauðsynlegar upplýsingar liggja ekki fyrir eða eru óaðgengilegar. Þá hefur stefnumótun í málaflokknum verið rýr og árangur af aðgerðaáætlun sem fylgdi stefnu í geðheilbrigðismálum 2016–2020 var ófullnægjandi.“

Undir þetta rita stjórnarþingmenn rétt eins og stjórnarandstæðingar sem segir okkur auðvitað bara að við höfum verk að vinna. Ég get auðvitað haldið enn lengri ræðu um allar vanefndirnar í kerfinu en lítum til framtíðar og komum okkur saman um einhvers konar verklag sem nýtist þá til þess að taka utan um þann hóp sem er undir þarna í kerfinu því að oft er um að ræða bráðveikt og alvarlega veikt fólk í sérlega viðkvæmri stöðu, margt hvert.

Það er talað svolítið um gráu svæðin í þessari skýrslu og það þýðir að það er óljóst hver á að veita tiltekna þjónustu og óljóst hver á að borga fyrir hana og það er auðvitað mjög alvarlegt. Við erum oft að búa til einhver hugtök eins og grá svæði, en það þýðir bara að veikt fólk er ekki að fá þjónustu við hæfi. Það bendir hver á annan og sjúklingurinn fellur þar á milli. Ef við setjum okkur aðeins í spor þess veika sem fær ekki þjónustu, vegna þess að ábyrgðin í málaflokknum og fjárveitingin er ekki skýr, þá sjáum við að allt tal um grá svæði er auðvitað bara ákveðin fegrun á því sem er í gangi. Engu að síður er þetta eitthvað sem þarf að takast á við.

Í skýrslunni segir:

„Á þetta ekki síst við um aðstæður þar sem um langvinnan vanda er að ræða og þegar einstaklingar þurfa á úrræðum heilbrigðis- og félagslega kerfisins að halda samtímis og þörf er á samhæfðari þjónustu, t.d. hjá börnum með fjölþættan vanda og fólk með heilabilun. Þetta er einn helsti veikleiki í stjórnsýslu málaflokksins. Vandinn er flestum kunnur en illa gengur að leysa hann.“

Þetta er enn ein uppáskrift Ríkisendurskoðunar um það að vandi hefur verið viðvarandi í kerfinu sem hefur ekki verið leystur þrátt fyrir að hann sé ávarpaður aftur og aftur, bæði úti í samfélaginu, af notendum, af hagsmunaaðilum og hér í þinginu. Undan þessu komast þeir ekki sem hafa farið með stjórn landsins undanfarin ár.

Ríkisendurskoðun segir síðan um þetta:

„Mikilvægt er að umgjörð geðheilbrigðisþjónustu og þjónustu við geðfatlaða sé ávallt hugsuð út frá þverfaglegum sjónarmiðum, allt frá stefnumörkun til framkvæmdar. Í þessu sambandi má nefna að lög um heilbrigðisþjónustu fjalla ekki um samráð eða samstarf heilbrigðisstofnana við aðra þjónustuveitendur svo sem félagsþjónustu. Margir viðmælendur Ríkisendurskoðunar vöktu athygli á að skortur á samstarfi og samráði heilbrigðisstofnana og félagsþjónustu sé algengur, skaðlegur hagsmunum sjúklinga og kostnaðarsamur þar sem bestur árangur náist sé hugað að heilsu fólks og félagslegum þáttum í samhengi.“

Það er auðvitað mjög sláandi að lesa að það sé þannig að einstaka einingar innan kerfisins talist ekki við. Það þýðir auðvitað, eins og ég held að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi orðað það ágætlega áðan, að fólk er ekki að tala saman. Þetta er ekki kerfi sem við ráðum ekkert við. Þetta er allt saman fólk og þá vantar bara stefnu og umgjörð sem gerir það að verkum að fólkið innan þessara kerfa tali saman. Ef það gerist ekki þá er það auðvitað sjúklingurinn sem líður fyrir það.

Það er líka sorglegt að lesa um það að fordómar séu innbyggðir í kerfinu sem bætast þá við fordóma sem fólk með geðrænan vanda verður stundum fyrir í samfélaginu almennt. Ég hef ávarpað þetta áður í þingræðu og bendi á að þetta þýðir í raun og veru að ákveðin mismunun er innbyggð í heilbrigðiskerfið. Það sitja ekki allir við sama borð. Aðgengi að þjónustu er misgott, til að mynda vegna búsetu, út af efnahag og vegna tegundar geðvanda. Þetta þýðir að veiku fólki er mismunað og úr því að þetta er innbyggt í geðheilbrigðiskerfið þá er það þannig að þetta kerfi tryggir fólkinu okkar mismunun. Það tryggir ekki jafnræði, það tryggir mismunun, það er innbyggt inn í kerfið. Við hljótum að þurfa að taka þetta til rækilegrar skoðunar í framhaldi af þessari skýrslu. Það er ekki eins og sumt af þessu hafi ekki verið vitað áður en engu að síður þurfum við að taka þetta til rækilegrar skoðunar og þetta er auðvitað algerlega ólíðandi.

Mig langar líka að nefna að Geðhjálp er aðeins að fara yfir það sem snýr að tölfræði og það hvernig haldið er utan um tölulegar upplýsingar. Geðhjálp ítrekar mikilvægi þess að auka, bæta og halda vel utan um gagnasöfnun og miðlun þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Það sé auðvitað forsenda þess að meta árangur og ákvarða framfaraskref. Geðhjálp hefur t.d. ítrekað kallað eftir gögnum um lyfjaþvinganir, nauðungarvistanir, lyfjanotkun o.fl. sem má nota til að meta árangur hjá stofnunum sem meðhöndla fólk með geðrænar áskoranir. Bent er á það hjá Geðhjálp að það hafi tekið Ríkisendurskoðun sjö mánuði að fá gögn frá heilbrigðisráðuneytinu sem segir til um hversu miklar umbætur þurfa að verða er kemur að gagnasöfnun og vinnslu í málaflokknum.

Það var aðeins farið yfir þetta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það gekk erfiðlega hjá Ríkisendurskoðun að fá upplýsingar þegar var verið að vinna skýrsluna og það er auðvitað ekki nógu gott. Ríkisendurskoðandi vakti svolítið einbeitt athygli á því að þrátt fyrir að þetta hafi verið gert á Covid-tímum hafi það ekki verið skýringin á því að upplýsingar bárust seint. Þetta þarf auðvitað að laga. Við vitum það öll að vinna Ríkisendurskoðunar er í umboði Alþingis og þetta er ákveðið eftirlit með framkvæmdarvaldinu sem verður að vera virkt. Það gengur ekki að framkvæmdarvaldið, hvort sem það eru ráðuneytin eða stofnanir undir ráðuneytunum, bregðist seint við þegar kallað er eftir upplýsingum í þessu. Ég vildi nefna í lokin, og ég ætla kannski að fara betur inn á það í síðari ræðu, það sem snýr að einum stærsta vandanum þegar kemur að geðheilbrigðismálum. Það er fólk sem er með áfengissýki eða er að glíma við fíkn. Sá vandi snýst ekki bara um það fólk heldur líka aðstandendur og aðra sem þurfa að þola afleiðingar þess. Það er vandi sem teygir sig inn í fleiri kerfi samfélagsins, félagsþjónustuna, barnavernd, fangelsin, dómskerfið, löggæslu og allt það. Ég kem kannski betur að því í seinni ræðu minni.

Mig langaði alveg í lokin að nefna að við megum ekki gleyma því — þegar við erum að afgreiða svona skýrslu og erum að höndla með þau hugtök sem kastað er fram henni og er ætlað að skýra einhvern undirliggjandi vanda — að á bak við þetta allt saman er fólk. Í mörgum tilfellum er um að ræða fárveikt fólk. Þegar við erum að tala um kerfi, þegar við erum að tala um grá svæði, þegar við erum að tala um mönnunarvanda eða að kerfin tali ekki saman eða eitthvað þess háttar þá er fólk þar að baki, fólk sem er sjálfsagt í einna viðkvæmastri stöðu af öllum þeim sem reiða sig á samhjálp samfélagsins. Við eigum auðvitað að vera mjög meðvituð um það þegar við erum að fara í gegnum þessa skýrslu og hafa það líka til hliðsjónar þegar við ræðum síðan mögulegar úrbætur byggðar á henni. Ég held að það dyljist ekki neinum sem hefur farið í gegnum þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar að það er afskaplega margt sem þarf að gera til að koma málum í skaplegt horf.