Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[18:17]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir andsvarið. Ég fagna því að geta átt skoðanaskipti um þetta við hann. Ég hjó eftir þessu í óundirbúna fyrirspurnatímanum í dag hjá hæstv. fjármálaráðherra. Það var talað um þessa sókn í geðheilbrigðismálum. Ég veit ekki hvað ég sat marga fundi í kosningabaráttunni með frambjóðendum VG þar sem endalaust var talað um sókn í geðheilbrigðismálum. Við erum auðvitað að horfa á skýrslu þar sem tekin er ákveðin punktstaða í því hvernig kerfið er á ákveðnum tíma. En þegar flokkar sem hafa verið við völd saman — þrír í fimm ár og tveir nánast óslitið frá 2013 og meira og minna við völd saman eða hvor í sínu lagi allan lýðveldistímann — er rosalega skrýtið hvernig menn ætla einhvern veginn að hlaupa frá vandanum og fara að tala um einhverja sókn. Þessi skýrsla er auðvitað bara punktstaða á ákveðnum tíma og segir okkur að þeir sem hafa farið með stjórn geðheilbrigðismála í kerfinu almennt hafa fallið á prófinu. Flóknara er það ekki.

Það var alveg rétt sem hv. þm. Logi Einarsson benti á að ef menn hlúa ekki að sálfræðiþjónustu og efla hana þá magnar það upp vanda seinna meir. Það er t.d. það sem Geðhjálp er mjög mikið að tala um í umsögn sinni um þessa skýrslu. Í stóra samhenginu fer allt of mikið fjármagn í geðheilbrigðismálum í afleiðingaendann en sáralítið í orsakirnar, í heilsueflingu og forvarnir, einhverja snemmtæka skoðun. Tímar hjá sálfræðingi geta komið í veg fyrir mikil útgjöld í kerfinu seinna meir. Ég get ekki enn skilið hvernig stendur á því að það gengur svona illa að fjármagna það sem Alþingi samþykkti hér fyrir ekki alllöngu og snýr að sálfræðiþjónustu.