Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir afbragðsræðu. Ég tek undir orðanotkun hans í gegnum ræðuna. Þetta er auðvitað ekkert annað en áfellisdómur. Þetta er dökk skýrsla. Það er alveg sama hvernig menn reyna að koma hingað upp í ræðustól, hver á fætur öðrum, stjórnarþingmenn, þeir komast ekkert undan því að um er að ræða alveg ótrúlega einkunnagjöf yfir þeim sem farið hafa með ábyrgð í þessum málaflokki á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Ég ætla að taka undir þakkir sem hv. þingmaður bar fram hér í upphafi. Ég sá að það voru hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir, aðrir þingmenn Miðflokksins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason sem báðu um þessa skýrslu á sínum tíma og það er ómetanlegt að hafa hana til að ræða málin nú þegar við erum aðeins komin inn í nýtt kjörtímabil.

Hv. þingmaður kom inn á mönnunarvandann. Ég verð alltaf svolítið hugsi yfir því þegar verið er að ræða þetta. Þetta var nefnt í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag þar sem verið var að tala um fjármagn sem vantar inn í kerfið og þá með vísan í mönnunarvanda. Þá kemur hæstv. fjármálaráðherra upp og segir: Það vantar ekkert fjármagn inn í kerfið, þetta er mönnunarvandi. Það er eins og mönnunarvandinn sé eitthvað sem hafi fallið af himnum ofan og sé ekki úrlausnarefni stjórnmálanna eða á ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem sitja í ríkisstjórn og hafa gert lengi. Ég ætla að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sé ekki sammála mér í því að það sé alltaf ákveðinn ábyrgðarflótti þegar við erum að tala um stóru myndina í þessum málum, hvort hægt sé að afgreiða mönnunarvandann á þann veg að ekki þurfi að takast mikið á við hann af því að ekki sé hægt að leysa hann með fjármunum.