Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þótt ég og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir séum kannski ekki sammála um allt, eins og þingmaðurinn nefndi, þá kemur hv. þingmaður með mjög áhugaverðan punkt sem mér finnst að þeir sem tala fyrir aukinni þjónustu af hálfu sjálfstæðra aðila eða einkaaðila þurfi að líta til. Þetta er alveg rétt, þessi hætta er til staðar en hún er fyrst og fremst til staðar vegna þess að það skortir yfirsýn af hálfu stjórnvalda, eins og kemur ítrekað fram í þessari skýrslu. Þess vegna verða til þessi gráu svæði sem svo eru kölluð og einstaklingar lenda á milli úrræða, eins og Ríkisendurskoðun orðar það. Og þegar menn lenda á gráu svæði eða á milli úrræða þá er aukin hætta á að menn komist upp með að skilgreina þarfirnar sjálfir til hliðar við vandann. En Ríkisendurskoðun bendir líka á að það þurfi að tryggja tímanlegt aðgengi fólks að geðheilbrigðisþjónustu við hæfi samkvæmt skilgreiningu og viðmiðunum um biðtíma og að eina leiðin til þess sé að auðvelda og jafna aðgengi fólks að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með því að ljúka samningum við sjálfstætt starfandi geðlækna og sálfræðinga. Það hefur ekki tekist hjá þessari ríkisstjórn og ég held að viljinn hafi ekki verið fyrir hendi. Svo ég svari nú athugasemd hv. þingmanns þá get ég tekið undir það að þau atriði sem nefnd voru séu eitthvað sem ríkið þurfi að passa upp á og hafa í huga. En þau hafa ekki komið í veg fyrir að ríkið nýti þá kosti sem felast í því að ráða til starfa þá sem eru best til þess fallnir að leysa verkefnið. En þá þarf líka að vita hvert verkefnið er.