Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[19:57]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni. Þetta er áhyggjuefni. Þess vegna þarf umræðan um þennan málaflokk að vera töluvert víðari en það sem við erum að gera hér. Við erum vissulega að ræða um getu heilbrigðiskerfisins til að bregðast við og það er vond einkunn sem við fáum þar. En þegar við leitum síðan leiða til úrbóta þá hljótum við að þurfa útvíkka sjónarhornið. Ég verð nú að segja í því samhengi að það hefði mögulega verið óskandi að uppstokkun ráðuneyta við endurnýjun á ríkisstjórnarheitunum hefði falið í sér skilning á þessu viðfangsefni í staðinn fyrir að við stöndum hér og ræðum skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál sem útskýrir bara að hún taki ekki félagslega hlutann með í reikninginn. En þetta er mál sem snertir vinnumarkaðinn, snertir aðstöðu heimila og snertir svo ótal margt annað. Ég verð líka að segja að mér finnst það mjög þungt að viðurkenna að við, þetta örsamfélag, séum aftur og aftur að skoða einhverjar áskoranir og það fyrsta sem alltaf kemur upp er: Við höfum ekki yfirsýn. Ég átta mig ekki á því hvernig við getum sætt okkur við þessa stöðu. Tökum þá umræðu í tugmilljóna samfélögum, 100 milljóna, en þetta er eiginlega ekki hægt lengur. Við hljótum að eiga einhver úrræði til þess að fara að ná heildarmyndinni og beina kröftum okkar og sjónum að því hvernig við mótum heildarstefnu þar sem allt er undir í þessu máli.