Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða fyrirspurn og þarna kemur hann inn á mjög mikilvæga þætti sem eru eiginlega grundvallarþættir í því sem við erum að kljást við. Það eru þessir löngu biðlistar og mönnunarvandi, það er samspil þarna á milli að hluta til. Ástæðan fyrir því að biðlistarnir eru langir er m.a. vegna þess að það gengur erfiðlega að manna þessar sérfræðistöður, það eru bara einfaldlega of fáir sérfræðingar sem geta tekið við sjúklingum og þá hlaðast upp biðlistar. Það er eitt sem er áhugavert að skoða í samspili við þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar, en árið 2017 stóð landlæknisembættið fyrir samstarfsfundi um geðheilbrigðismál barna og unglinga og þar kemur margt mjög áhugavert fram. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér skýrslu þessa fundar ef hann hefur þá ekki þegar gert það því hann hefur ágætisþekkingu á þessum málaflokki.

Hvað sé ég fyrir mér að sé hægt að gera í þessum mönnunarvanda? Við þurfum bara að eiga þetta samtal við þessa starfsstétt, geðhjúkrunarfræðinga og sérfræðinga á þessu sviði og fá það fólk í lið með okkur til að finna leiðir til að fjölga starfsfólki í þessum geira með sérfræðiþekkingu. Ég hef ekki lausnirnar per se, sjálfsagt eru einhvers staðar þarna launamál, kjaramál, aðstæður, vinnuálag og annað slíkt. Þetta spilar allt saman. En þetta fyndist mér vera fyrsta stigið til að reyna að hefja þessa vinnu, að draga úr mönnunarvanda og draga úr þessum löngu biðlistum.