Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[20:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Í umræðu um þessa skýrslu og hjá gestum sem komu frá Ríkisendurskoðun fyrir velferðarnefnd og voru að fara í gegnum skýrsluna kom greinilega fram það sem er það furðulegasta í þessu kerfi. Þegar verið var að búa til geðteymin á heilsugæslunum þá soguðu þeir starfsfólk frá BUGL og frá öllu kerfinu, það var eiginlega ekkert nýtt fólk sem kom inn. Árangurinn sem náðist í heilsugæslunni hvarf þannig og olli því að það mynduðust biðlistar annars staðar í kerfinu. Það er spurningin sem ég er að hugsa um og svo er líka hitt, þessi skuggasvæði í þessu kerfi sem enginn virðist vera að kortleggja. Ég hef mestar áhyggjur af því að við séum einhvern veginn að elta skottið á sjálfum okkur og það þurfi hreinlega gersamlega nýja lausn sem allir geta tekið þátt í að finna.