Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[21:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og er innilega sammála henni. En ég verð líka að benda á það að skólakerfið er þannig uppbyggt að það þarf að fá greiningu í kerfinu til að hlutirnir fari að ganga. Nýlegt dæmi sem ég veit um var þar sem foreldrar stóðu frammi fyrir því að þau þurftu að bíða í 18 mánuði til að komast með barnið sitt inn í kerfið eða að fara út fyrir kerfið og borga einhverja tugi þúsunda. Þau völdu að fara út fyrir kerfið þó að þau teldu sig ekki hafa efni á því, en þau töldu að það væri barninu fyrir bestu. Ég spyr mig: Þegar við erum komin með svona kerfi þar sem er hægt að fara fram hjá því ef þú hefur fjármuni, hvaða afleiðingar hefur það fyrir þá sem hafa ekki þennan möguleika? Er ekki ósanngjarnt að við skulum vera með þessa aðstöðu og setja foreldra yfirleitt í þá aðstöðu að þurfa að velja? Það hlýtur að vera skelfilegt fyrir þá sem geta ekki valið það.