Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[22:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði um geðheilbrigðisteymi fyrir fólk með greinda geðsjúkdóma sem er afskaplega gott úrræði og er víða um land. Hún talaði þó um að skortur væri á sérfræðimenntuðu fólki, það þyrfti að fjölga fólki í þessari þjónustu og að þjónustuþörfin væri að aukast. Í morgun spurði ég hæstv. fjármálaráðherra um vanfjármögnun og hann vísaði því á bug að um slíkt væri að ræða, það væri bara skortur á fólki. Nú höfum við hv. þingmaður bæði rekið fyrirtæki stóran hluta okkar fullorðinsára, hún að vísu miklu stærra fyrirtæki en mitt, og þess vegna er ekki nema von að ég hafi ekki skilið lógíkina hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég spyr því hv. þingmann: Hvernig ætla Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin að láta þetta ganga upp nema með því að auka fjármagn til þjónustunnar?