Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Þegar ég þurfti frá að hverfa í fyrri ræðu var ég byrjaður að rekja þær tillögur sem Ríkisendurskoðun leggur fram um úrbætur. Ég átti eftir að nefna sérstaklega umsögn Héðins Unnsteinssonar fyrir hönd Geðhjálpar. Ég ætla að byrja á því síðarnefnda og sjá svo til hvort ég kemst aftur í tillögur Ríkisendurskoðunar. Héðinn Unnsteinsson nefnir atriði sem ég tel vera mjög mikilvægt í þessum málaflokki öllum og snýr að húsnæði. Hann, fyrir hönd Geðhjálpar, nefnir reyndar mörg atriði en meðal þess sem hann bendir á er að byggja þurfi nýtt húsnæði geðsviðs Landspítala og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar. Þetta er að mínu mati mjög vanmetið atriði, þ.e. umhverfið sem fólki í meðferð er boðið upp á.

Ég minnist þess, þegar ég var snemma á þessari öld starfandi á Ríkisútvarpinu og fór í heimsókn á geðdeild Landspítalans að skoða þar aðstæður, að ég hugsaði með mér — og nú er ég ekki að grínast, herra forseti, með þetta — að ef maður væri ekki með geðræn vandamál þegar maður legðist þarna inn þá væri maður það örugglega þegar maður færi þaðan út. Húsnæðið, umgjörðin, andrúmsloftið var slíkt. Nú hafa, veit ég, verið gerðar einhverjar breytingar á þessu húsnæði, og það eflaust fært til nútímalegri og betri vegar. Engu að síður er þetta mjög raunverulegt vandamál eða a.m.k. umhugsunarefni, sú umgjörð sem þessari þjónustu er búin. Í tilviki Landspítalans var þessi þjónusta veitt áratugum saman í húsnæði í svona brútalistastíl samkvæmt tísku ársins 1974, eða hvenær þetta var allt saman byggt, og ekki til þess fallið að auðvelda fólki, ímyndar maður sér, að ná geðrænni heilsu. Umhverfi fólks hefur mjög veruleg áhrif á andlega líðan. Fyrir liggja rannsóknir, ítrekaðar og margar, um þetta, og þess vegna þurfum við að huga að umgjörðinni, hinu byggða umhverfi, náttúrunni í kring, þegar við reynum að koma á betri úrræðum til að aðstoða fólk við að ná geðrænni heilsu. Ég rakti þetta sérstaklega í umræðu um viðbyggingu við Landspítalann við Hringbraut, þar sem ég lagði til aðrar leiðir, nýjan Landspítala annars staðar. Ég vísaði þá sérstaklega til danskrar tillögu um nýja spítalabyggingu þar sem gert var ráð fyrir sérstöku húsi fyrir geðdeildina í náttúrunni; fallegt hús og bjart í fallegu umhverfi. Þar gerðu menn sér grein fyrir því að þetta skiptir allt máli.

Ég myndi vilja nota tækifærið til að ítreka mikilvægi þess að menn hugi líka að umgjörðinni. Auðvitað þarf að huga að kerfinu, eins og ég ræddi í fyrri ræðu, kjörum, aðbúnaði starfsfólks og skipulagi kerfisins alls — ég næ ekki að fara yfir það, herra forseti, á þeim stutta tíma sem ég á eftir, en það þarf líka að huga að umhverfinu. Af því að ég sé að tíminn er að renna frá mér ætla ég rétt að nefna sjöunda atriðið í tillögum Ríkisendurskoðunar um aðgerðir, þar sem fjallað er um mikilvægi aðgerðaáætlana og eftirfylgni þeirra og skýra framtíðarsýn, að stefnu stjórnvalda þurfi að fylgja eftir með ákveðinni aðgerðaáætlun sem felur í sér skýr og vel skilgreind markmið, tímamörk og tilgreinda ábyrgðaraðila. Á þetta hefur algjörlega skort. Við þurfum að fá frá núverandi ríkisstjórn, og ef það gengur ekki þá frá næstu ríkisstjórn, skýra framtíðarsýn og heildaráætlun þar sem m.a. er litið til þeirra tillagna sem birtast í skýrslunni.

Í lokin vil ég ítreka þakkir til þeirra sem stóðu að gerð skýrslunnar, Ríkisendurskoðunar, en einnig þeirra sem hvöttu til þess að hún yrði gerð, fyrrverandi þingmanns Miðflokksins, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, og Vilhjálms Árnasonar fyrir að hafa gert þetta að veruleika. Hér birtast niðurstöður sem eru sláandi en geta líka reynst gagnlegar ef menn hrinda þeim í framkvæmd.