Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[23:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þó að ekki megi gera lítið úr mikilvægi persónuverndar þá er ég þeirrar skoðunar a.m.k., og þar með sammála hv. þingmanni, að fólk geti lent í þeim aðstæðum að það geti ekki lengur sjálft björg sér veitt, það þurfi utanaðkomandi aðstoð, það sé ekki fært um að meta eigin aðstöðu og taka ákvarðanir um hvernig það verji sig best. Ég er ekki frjálshyggjumaður. Ég er þeirrar skoðunar að það komi upp aðstæður í samfélaginu þar sem geti þurft að hafa vit fyrir einhverjum og ég þekki mörg dæmi þess að fólk hafi orðið mjög þakklátt eftir á að gripið hafi verið inn í og gert sér grein fyrir því að ef viðkomandi hefði verið skilinn eftir sjálfur með það að meta sína stöðu og hvað ætti að gera þá hefði getað farið mjög illa eins og í því dæmi sem hv. þingmaður nefndi hér áðan. En vegna þess að gripið var inn í þá hafi viðkomandi náð að koma sér á réttan kjöl aftur. Ég tek heils hugar undir að það koma upp þau tilfelli þar sem þarf inngrip og það inngrip virkar auðvitað þeim mun betur sem kerfið er betur í stakk búið og samræmt, eins og Ríkisendurskoðun bendir á, til að taka á máli viðkomandi á þann hátt sem á við hverju sinni. En við núverandi aðstæður og hjá allt of mörgum, jafnvel þegar gripið er inn í, sem þyrfti líklega vera oftar, en jafnvel þegar gripið er inn í þá er það ekki gert á réttan hátt vegna þess að það skortir heildarsýnina, kerfið spilar ekki saman og menn falla milli skips og bryggju vegna þess að það er óljóst hvar ábyrgðin liggur, hver á að taka af skarið. Svoleiðis að þetta þarf að laga eins og Ríkisendurskoðun minnir okkur á og ég ætla að vona að ríkisstjórnin taki mið af þessari skýrslu og geri nauðsynlegar úrbætur.