Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[12:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns barna sem hafa verið að vinna úr niðurstöðum barnaþings sem haldið var á þessu ári afhentu ráðherrum ríkisstjórnarinnar skýrslu barnaþings nú í lok maí. Þeirri afhendingu fylgdi eindregin ósk þessara barnaþingmanna að niðurstöðurnar yrðu teknar til umræðu á Alþingi Íslendinga. Það er nokkuð sem við höfum rætt áður að gera en aðdragandi málsins er sá að barnaþing hefur nú verið haldið tvisvar, var haldið í fyrsta sinn 2019. Það var sett í lög um umboðsmann barna árið 2018 og raunar var það ég sem mælti fyrir því, enda áhugamanneskja um aukið lýðræði barna og ungmenna um langt skeið. Það er því ánægjulegt að hafa fylgt þessu máli eftir frá upphafi og ég tel raunar eftir þessi fyrstu þing að þau hafi fest sig í sessi sem einstakur vettvangur fyrir sjónarmið barna og ungmenna í íslensku samfélagi. Það má segja að þing sem þetta veiti börnum tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið, bæði með beinum og óbeinum hætti, og við erum að taka það aðeins lengra með því að efna til þessarar umræðu hér á þingi, sem er um málefni sem brenna á börnum landsins.

Barnaþing var haldið í mars á þessu ári og fyrir utan það að koma saman og hlusta á raddir barna hvaðanæva af landinu fannst mér mjög tilkomumikið að sjá hve mörg börn þáðu boð um að taka þátt og sýndu þannig í verki að þau láta sig samfélagsleg málefni varða. Sú aðferðafræði sem er notuð til að velja inn á þingið tryggir að hugað er að kynjahlutfalli, aldurshlutfalli og búsetu þátttakenda. Barnaþingmenn undirbjuggu svo þingið og völdu umræðuefni sem voru þrjú og fyrir valinu urðu umhverfismál, mannréttindi og menntun. Ég mun hér fara yfir helstu niðurstöður sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu.

Í tengslum við umhverfismál var það eiginlega flokkun sem stóð upp úr enda er það eitthvað sem stendur okkur öllum mjög nærri og við getum haft mikla stjórn á, bæði inni á heimilum okkar en ekki síður í okkar nærsamfélagi. Barnaþingmönnum þótti flokkun hér á landi vera verulega ábótavant og hægt væri að gera mun betur og tillögur þeirra lúta að því að fjölga flokkunarflokkum og fá fleiri til að taka þátt í því að flokka úrgang. Allar almenningstunnur ættu að vera með flokkunarhólfum og þær þurfi líka að vera í skólastofum. Þau ræddu líka um að efla þyrfti kennslu um umhverfismál. Nú er það svo að ein af grunnstoðum aðalnámskrár er sjálfbærni en það verður líka að segjast eins og er að sú grunnstoð hefur verið í aðalnámskrá í tíu ár og henni er auðvitað misjafnlega sinnt milli mismunandi skóla, það er bara eðli máls samkvæmt þegar við erum að skoða hvernig námskráin skilar sér inn í skólana, en þó hafa verið stigin alveg gríðarlega mörg framfaraskref í þessum efnum. Barnaþingmenn ræddu líka mikilvægi þess að minnka matarsóun, sem er auðvitað stórmál, ekki bara fyrir börn heldur okkur öll. Við erum að sóa gríðarlegu magni af mat á Íslandi og það er í raun og veru eðlilegt, og ég ætla að fá að taka undir þessar áherslur barnaþingmanna, að allar opinberar stofnanir setji sér stefnu um matarsóun þannig að úr henni verður dregið verulega. Þau ræddu líka um möguleika á því að nýta matarafganga. Síðan var rætt töluvert mikið um plastnotkun og þar gafst einmitt tækifæri á samtali milli ráðherra og þingmanna annars vegar og barnaþingmanna hins vegar þar sem stigin hafa verið mjög stór skref í því að draga úr notkun einnota plasts. En þetta var skýrt áherslumál. Síðan voru samgöngumálin rædd þar sem þau ræddu t.d. um fleiri upphitaða hjóla- og göngustíga. Eitt af því sem mér hefur komið í huga og mér finnst að þingið eigi að taka til skoðunar næst þegar samgönguáætlun er til umræðu, vegna þess að við þróun samgönguáætlunar höfum við m.a. verið að reyna að meta ólík áhrif samgönguframkvæmda á kynin, er að hugsa um börn og ungmenni í því samhengi því að börn og ungmenni eru ekki endilega að fara sömu leiðir og fullorðnir þannig að það eru ekki síður ólík áhrif á aldurshópa heldur en kyn. Þetta fannst mér gríðarlega mikilvæg hugmynd. Þau ræddu líka um flugferðir, kolefnisjöfnun og hvernig mætti hvetja til aukinnar notkunar rafbíla. Þau sáu líka mikil tækifæri í gróðursetningu, að draga úr pappírsnotkun með því að nýta rafræn próf og fleira.

Í mannréttindakaflanum kennir ýmissa grasa. Ég minnist mikillar umræðu um jafnrétti og aðgengismál sem voru eiginlega alltumlykjandi í þeirri umræðu sem ég sjálf tók þátt í á barnaþinginu. Þau lögðu líka sérstaka áherslu á jafnrétti allra kynja og að útrýma þurfi öllum fordómum til að tryggja að öll fái að vera eins og þau sjálf kjósa. Þau töluðu þar um að öll kyn ættu að hafa greiðan aðgang að opinberu salernum, sund- og íþróttaklefum. Það var líka rætt um launajafnrétti, hækkun lágmarkslauna og að allir ættu að njóta sambærilegra tækifæra á vinnumarkaði. Þau ræddu líka um þátttöku barna í umræðum um mál sem varða þau og þar var kosningaaldur til umræðu og sú skoðun kom fram að hann ætti að fara niður í 16 ár. Þá rifjast nú upp þingmál sem ég hef sjálf flutt um 16 ára aldurstakmark í sveitarstjórnarkosningum sem væri, held ég, gríðarlega góð byrjun til að taka þessi mál lengra því það eru risastórir málaflokkar sem varða börn og ungmenni. Fólk er þá nýkomið úr grunnskóla og fengi tækifæri til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Það var rætt um aðgengi að sálfræðingum, m.a. að allir skólar ættu að vera með sálfræðing. Þar hefur auðvitað orðið töluverð breyting á undanförnum árum, þ.e. aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu innan skólanna, en betur má ef duga skal. Það var sérstaklega rætt um biðlista eftir sálfræðingum. Tómstundir voru ræddar og jafnt aðgengi allra barna að tómstunda- og íþróttastarfi að eigin vali. Það var rætt líka um mikilvægi almenningssamgangna og að þær væru helst gjaldfrjálsar. Það var líka rætt um mikilvægi þess varðandi þau sem hingað koma, hvort sem er fólk í leit að betra lífi eða fólk á flótta, að börnin fengju ekki bara tækifæri til að læra íslensku heldur fengju líka kennslu í sínu eigin móðurmáli. Það var sérstaklega rætt.

Síðan voru það menntamálin sem standa auðvitað börnunum nærri. Þar voru heitar umræður, sérstaklega um sund og dönsku. Ég kannast nú við dönskuumræðuna frá tíð minni sem mennta- og menningarmálaráðherra þar sem ég fékk ófá bréf um dönskukennslu. Ég er reyndar mikill talsmaður dönskukennslu og viðraði þá skoðun mína á barnaþinginu, kannski ekkert við sérstakar vinsældir. En mér finnst það vera umhugsunarefni fyrir okkur í skipulagningu skólakerfisins af hverju þessi staða er uppi. Við erum kannski ekki að rökstyðja það nægilega vel af hverju við erum að bjóða upp á nám í dönsku, sem er auðvitað sú staðreynd að Norðurlöndin eru okkar nánustu vinaþjóðir og þetta er gríðarlega mikilvægt svæði fyrir okkur, bæði til að sækja okkur æðri menntun og sækja okkur störf. Danskan er mikill aðgöngumiði — og þótt það væru önnur Norðurlandamál en auðvitað hafa Íslendingar helst sótt til Danmerkur. Þannig að ég velti því fyrir mér, þegar maður heyrir þessa umræðu, ekki bara sem menntamálaráðherra heldur líka tíu árum seinna á barnaþingi, nákvæmlega sömu umræðu: Hvað erum við að gera rangt í því að tala um þetta? Auðvitað skiptir máli að börn og ungmenni hafi áhrif á sitt nám. Síðan var talað um að sund mætti jafnvel vera valgrein, a.m.k. þar til að unglingastigi væri náð. Þetta er nokkuð sem ég hef líka heyrt á undanförnum árum og er vaxandi umræða. En almenna stóra myndin var að mikilvægt væri að nám ætti að miðast við getu hvers og eins. Það var töluvert rætt um að heimanám væri almennt of mikið. Bjóða þyrfti upp á þann möguleika að kennarar veittu nemendum sem þyrftu aðstoð hjálp við heimanám þar sem foreldrar hefðu mjög mismikla þekkingu og getu til að aðstoða heima fyrir. Mér finnst mjög merkilegt að þessi ábending komi fram því að þetta er auðvitað alþekkt í umræðum um jöfnuð og menntakerfið, þ.e. að ef mikil áhersla sé lögð á heimanám sé í raun og veru verið að auka enn á aðstöðumun milli barna, því bakgrunnur þeirra er svo mismunandi. Þetta lá algjörlega klárt fyrir af hálfu barnaþingmanna. Þau nefndu líka að það væri stundum ansi löng viðvera í skólunum. Ég nefni hér örstutt að þau töluðu líka um námsúrval í skólum og þar var ýmislegt nefnt, t.d. listgreinar, jafnréttismál, umhverfismál, stjörnufræði, þannig að það voru ýmsar greinar nefndar og þættir sem barnaþingmenn vildu leggja áherslu á. Ég get auðvitað ekkert komið með tæmandi lista, mig langar bara sérstaklega að nefna aðgengismálin þar sem við vitum að við erum ekki komin á þann stað að við getum sagt að þetta sé með sóma í okkar samfélagi. Það var einn þingmaður sem sagði að við gætum ekkert gert ráð fyrir því að öll börn kæmust upp hvaða stiga sem er og það mætti alveg skilja það bæði bókstaflega og ekki bókstaflega og mér fannst þetta mjög fallega orðað. Aðgengismálin eru risamál, bæði þessi áþreifanlegu en ekki síður hin óáþreifanlegu. Þetta fannst mér vera andinn sem sveif yfir vötnum á barnaþinginu.

Mér finnst ánægjulegt að fá þetta tækifæri til að gera grein fyrir þessu í stuttu máli. Það er ljóst að málin sem voru til umræðu á barnaþingi eru að mörgu leyti sömu mál og við ræðum hér og sum þeirra mættum við ræða meira. Ég nefni skólamálin sem dæmi, svo sannarlega ættu þau skilið meiri umræðu á Alþingi en tíðkast enda risastórt mál fyrir samfélagið allt. Það skiptir auðvitað máli að fá svona mikilvægt innlegg inn í þá vinnu.

Ég sagði það, þegar ég tók við þessari skýrslu, að bæði gætu svona niðurstöður haft bein áhrif en ekki síður óbein áhrif. Þetta er lærdómsferli, held ég, fyrir okkur þingmenn að venja okkur við. En ég vil nota tækifærið og segja að ég var mjög ánægð í bæði þessi skipti sem þetta þing hefur verið haldið að finna þennan mikla áhuga þingmanna og þingmenn tóku mjög mikinn þátt, mjög virkan þátt, sátu á borðum í umræðum, gáfu sér tíma í þetta samtal. Ég held að flestum sem ég hef a.m.k. rætt við hér á Alþingi hafi fundist þetta innblástur inn í sitt starf þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að áhrifin geta bæði verið bein en þau geta líka verið óbein því að þetta skiptir okkur máli. Við erum að fá hugmyndir sem við getum unnið að hér inni á þingi o.s.frv.

Mér fannst mikilvæg skilaboð sem þau settu sér sjálf fyrir þingið. Þau sögðu: Við ætlum að vera jákvæð, við ætlum að sýna hvert öðru virðingu. Við ætlum að hafa gaman. Mögulega mættum við velta því fyrir okkur í okkar störfum hér á þingi. En þessi andi og þessi gildi skiluðu sér svo sannarlega til okkar þegar við komum inn á þingið og tókum þátt, þessi virðing fyrir ólíkum skoðunum sem við gátum upplifað í umræðum á borðum en líka í samtalinu sem síðan var yfir allan salinn. Þannig að mér finnst hafa tekist alveg feikilega vel til. Mér finnst gott að við náum að ræða þetta þó að við séum hér á síðustu dögum þingsins og einhverjum finnist við ekki hafa mikinn tíma til stefnu, því að þetta er mikilvægt. Það sem ég myndi vilja sjá í kjölfarið væri að nefndir þingsins kynntu sér inntak skýrslunnar, að þetta væri skoðað þegar við erum t.d. að vinna að málum sem hafa bein áhrif á börn og unglinga. Ég nefndi samgöngumálin. Hví ekki að kalla til ráðgjafarhóp umboðsmanns barna og ræða við þau um samgönguleiðir? Mér er minnisstætt að á þingfundi sem hér var haldinn í tilefni af afmæli lýðveldisins var flutt mjög góð ræða úr þessari pontu um skólaakstur. Það var barn sem flutti hana sem eyddi gríðarlegum tíma í skólarútunni á hverjum einasta degi, mig minnir að þetta hafi verið á Vatnsnesinu. Því ekki að kalla þetta fólk til okkar og fá þeirra sýn á samgöngumálin? Stundum erum við dálítið lokuð inni í því að vilja bara ræða menntamál eða eitthvað sem er virkilega áþreifanlega tengt börnum. En gleymum því ekki að flest það sem við erum að fást við hér á þingi varðar börn með einum eða öðrum hætti og það getur verið mjög gagnlegt að fá þeirra sjónarmið inn í umræðuna. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, frú forseti, en ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir þeirra góðu og öflugu og virku þátttöku í þinginu sjálfu.