Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[12:40]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þessa skýrslu hér á dagskrá. Mér þótti það mikil upplifun að fá að mæta á barnaþing og sjá öll þessi ungmenni sem voru að láta sig samfélagsmál varða. Mig langar til að byrja á því að nefna að á setningarathöfninni fóru nokkrir ráðherrar upp á svið og héldu þar litla tölu. Ég verð að segja það, frú forseti, að þar sá ég nýja hlið á ráðherrunum, hlið sem ég hef ekki séð hér, þar sem þeir fóru aðeins yfir æsku sína og áhugamál, væntingar og vonir og mér þótti það merkilegt og hafði gaman af. Ég myndi gjarnan vilja sjá slíka hlið, ekki bara á ráðherrunum heldur kannski bara okkur öllum hér, að við færum kannski að horfa til fortíðar í þessu og reyndum að átta okkur á því hver við erum og hvað það er sem skiptir okkur máli. Við sjáum það svo vel í þessum ungmennum sem þarna voru hvað það er sem skiptir máli og þau voru alveg skýr með það hvað það er sem skiptir máli.

Eftir að hafa verið sveitarstjórnarmaður í ansi langan tíma þá hefur maður haft samskipti á þeim vettvangi við börn og ungmenni á ýmsan hátt og mig langar að nefna hin svokölluðu ungmennaráð. Ég held að það komi hér fram að rúmlega 60% af sveitarfélögum hafa sett á laggirnar þessi ungmennaráð. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fundar t.d. með ungmennaráði tvisvar á ári og það hafa verið merkilegir og gefandi fundir. Þeir hafa ekki alltaf verið þannig að manni hafi verið klappað. Stundum hefur maður bara verið tekinn í bakaríið á slíkum fundum fyrir það að standa sig ekki í stykkinu og að ekki væri verið að taka tillit til ungmenna í samfélaginu. Og það er bara oft með réttu, oft hefur ekki verið hlustað á skoðanir ungmenna. En það að þessi ungmennaráð séu komin vekur vonir um að það sé að verða til einhver tenging á milli stjórnsýslunnar, hver sem hún er, og ungmenna í samfélaginu.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað líka á síðasta kjörtímabili að fara í tilraunaverkefni með að heimila ungmennum, ungmennaráði, að skipa áheyrnarfulltrúa í nefndir sveitarfélagsins og þau tóku því bara mjög vel og sinntu því mjög vel og hafa hrósað bæjarstjórninni fyrir að hafa gert það. Þá átta þau sig á því út á hvað stjórnsýslan gengur, hvernig ákvarðanir eru teknar, hvaða mál eru lögð fyrir og þau hafa að sjálfsögðu rétt til að setja mál á dagskrá þannig að þetta er vettvangur sem er mjög góður til framtíðar. Sveitarfélögin eru líka á fullu við að innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það gengur auðvitað misvel. Akureyri var fyrsta sveitarfélagið til að gera það og ég held að Kópavogur sé líka búinn að því, en mörg sveitarfélög eru á fullu við að innleiða barnasáttmálann og það er auðvitað bara af hinu góða. Í því verkefni eru börn að taka þátt. Þetta er ekki bara eitthvað sem gerist á borði miðaldra karla í sveitarstjórn heldur eru börnin þátttakendur í því ferli að innleiða þennan barnasáttmála og líka bara að læra hvað stendur í barnasáttmálanum, hversu mikils virði hann er og þær skyldur sem við erum auðvitað að takast á herðar sem samfélag til að sinna börnum. Ég fékk að sitja í slíkri nefnd við innleiðingu barnasáttmála í Reykjanesbæ ásamt ungmennum og starfsmanni og síðan einum bæjarfulltrúa til viðbótar og ég lærði mikið og hafði mikið gagn af því að fá að taka þátt í því.

Eins og hér hefur komið fram þá erum við hér alltaf að hafa vit fyrir fólki, við höldum alltaf að við vitum hvað fólki er fyrir bestu, en svo þegar maður fer að spyrja börnin okkar þá eru þau ekkert endilega alltaf sammála okkur um hvað það er sem skiptir þau máli. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. forsætisráðherra og síðan í ræðu hv. þingmanns sem hér talaði á undan mér að þeim viðfangsefnum sem börnin eru að velta fyrir sér erum við kannski ekkert endilega að velta fyrir okkur. Það kemur fram í þessari skýrslu að umhverfismál skipta verulegu máli. Börn hafa þennan svokallaða loftslagskvíða. Þau eru bara nervus yfir framtíð sinni. Þau vita ekkert hvað tekur við, hvernig heimurinn verður þegar við skiljum við hann. Erum við að fara að skilja við heiminn þannig að hann verði betri eða ætlum við kannski að taka til okkar miklu meira en við þurfum í raun og veru, sem getur skaðað komandi kynslóðir?

Börn eru líka að velta fyrir sér fjármálalæsi. Þau vita ekkert um fjármál. Þau kunna ekki að lesa út úr launaseðli. Þau vita ekki hvernig á að borga skatt. Hvað er persónuafsláttur? Það er ýmislegt svona sem ungmenni eru að velta fyrir sér og átta sig ekki á af því að það er ekki verið að leggja áherslu á þetta. Ungmennin tala líka um kynfræðslu. Þau eru ekkert endilega tala um kynlífsfræðslu, þau eru fyrst og fremst að horfa til fræðslu um kynin og hvernig kynin eru, hver er munurinn á þeim og síðan bara að við lærum mörkin og virðingu fyrir þeim kynjum sem við tilheyrum ekki. Þetta er það sem börn eru að velta fyrir sér og það skiptir verulegu máli að við séum að velta slíkum spurningum fyrir okkur. Svo heyrir maður líka einatt og endalaust að andlegri heilsu ungmenna fari hrakandi. Börn eru kvíðin, þau eru nervus og kannski hafa samfélagsmiðlar áhrif á það. Það er mál sem við fullorðna fólkið verðum að taka alvarlega, að það endi ekki þannig að flest okkar endi á kvíðalyfjum eða einhverju slíku. Við þurfum að bregðast við. Hvað er það sem veldur þessum mikla kvíða hjá ungu fólki? Það er kvíði sem ég held að mörg okkar sem fullorðin eru vorum ekkert endilega að glíma við, ekki í þeim mæli sem maður heyrir að ungmenni eru að glíma við. Börn eru að benda okkur á það sem við getum gert betur og við eigum auðvitað bara að hlusta og vera opin fyrir því sem þau eru að segja okkur.

Hér hafa verið nefnd samgöngumál. Börn eru ekki með bílpróf en þau þurfa að komast á milli staða. Þau þurfa að komast í skóla og þau þurfa að komast í tómstundir og það þarf að skoða þetta allt saman. Erum við rukka börn fyrir að komast á þann stað sem skiptir þau miklu máli á meðan við keyrum um á jeppunum okkar á milli staða? Allir þessir hlutir skipta máli. Hér hafa verið nefnd aðgengismál. Þetta eru stórar spurningar sem við sem fullorðin erum verðum að taka til gagngerrar skoðunar. Það er þessi spurning sem hv. þingmaður bar hér áðan upp: Hvað á að gera við börnin? Og hvað eigum við að gera fyrir börnin? Ætlum við að standa með þeim eða eiga þau alltaf sýknt og heilagt að aðlaga sig að einhverju því umhverfi sem við erum búin að búa til og höldum að sé rétt fyrir allt og alla?