Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[13:12]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sína framsögu. Á barnaþingi komu saman börn á öllum aldri, alls staðar að af landinu og af öllum kynjum og við þingmenn fengum þann heiður að sitja hluta af þinginu. Að ræða við þau börn um málefni sem varða þau skiptir öllu máli. Við eigum ekki að taka ákvörðun um þeirra málefni án samráðs og samtals við þau. Niðurstöður barnaþings tengjast beint málum sem við erum að ræða hér dags daglega í þingsal. Þetta eru mikilvæg mál. Þau varða heilbrigðisþjónustu, öryggi, nám, umhverfismál, kynfræðslu, réttindi, aðgengi, orkumál, samgöngur og önnur mál sem hljóma fremur kunnuglega í okkar eyrum. En þess má geta að þessi börn og börn almennt hafa þessar skoðanir alltaf. Þau koma ekki fram í huga þeirra einu sinni á ári á barnaþingi og börn og ungmenni eiga að geta tekið þátt í ákvarðanatöku um málefni sem snerta þau. Oft er það nefnilega svo að það er litið á börn og ungmenni sem einstaklinga sem má líta fram hjá þegar kemur að ákvarðanatöku í samfélaginu. Þau fá almennt ekki að skipta sér af ákvarðanatöku sem hefur jafnvel áhrif á þeirra líf. Þeirra afskipti eru kannski bara talin óþarfi eða krúttleg — höfum krakkana með — en oft skipta skoðanir þeirra langmestu máli. Krakkar geta enn verið krakkar en þau geta samt tekið þátt í samfélagi sínu, borið ábyrgð og tekið þátt í ákvarðanatöku.

Það er til grundvöllur fyrir ungt fólk sem vill hafa áhrif og það eru ungmennaráð sveitarfélaganna eins og hefur komið fram í máli annarra þingmanna hér í dag. Samkvæmt æskulýðslögum eru sveitarfélög skyldug til að vera með ungmennaráð. Í lögunum stendur, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.“

Virkni ungmennaráðanna er mismikil. Í sumum tilfellum virðast sveitarstjórnir ekki hafa mikinn áhuga á samráði við ungt fólk í sveitarfélaginu og jafnvel hunsa vilja þeirra til að taka þátt. Við þurfum að styrkja ungmennaráð sveitarfélaganna. Við þurfum að hvetja sveitarstjórnir til að nýta þá sérfræðinga sem þar má finna því að í ungu fólki felst mikill mannauður. Börn eru okkar helstu sérfræðingar í málefnum barna og þau eiga að fá þá virðingu sem þau eiga skilið. Við þurfum að hleypa ungu fólki að borðinu. Það var gert á barnaþingi. Þar var ungu fólki hleypt að borðinu og þeim gefið tækifæri á því að láta rödd sína heyrast.

Eitt af því sem mér þótti mjög skemmtilegt og er til marks um jákvæða breytingu samfélagsins var að þingið byrjaði á stuttu erindi frá kynnunum. Börn koma upp, þau voru kynnarnir, og þau hófu kynningu sína á því að segja til nafns, hvaðan þau voru og hvaða persónufornafn þau nota. Þetta ættum við að venja okkur meira á. Fyrir mitt leyti væri kynning mín svona: Ég heiti Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, ég er úr Borgarfirðinum og ég nota persónufornafnið hún. Kannski ættum við að hefja kjörtímabilin á því að þingmenn komi hingað upp og tilkynni hvaða persónufornöfn þau nota vegna þess að áætla það hvaða persónufornafn er notað er ekkert sjálfsagt lengur.

Hæstv. forseti. Ég vil hrósa þeim sem tóku þátt í að skipuleggja barnaþingið, bæði fyrir vel heppnað þing og fyrir að hleypa börnunum að. Sérstaklega vil ég hrósa börnunum sem tóku þátt sem þingmenn á barnaþinginu og þau eiga þakkir skilið fyrir þátttöku sína. Við hér erum að hlusta.