Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[13:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er vert að fara aðeins yfir stöðu þessa máls í heild sinni. Hér er vissulega verið að festa í formi ákveðið fyrirkomulag sem áður hefur verið í bráðabirgðaákvæði í lögum og það er svo sem nægilega flókið að fara yfir það sem slíkt. En það er annað vandamál sem tengist NPA og lögunum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í bráðabirgðaákvæði með þeim lögum er talað um fjölda samninga sem ríkissjóður veitir framlag til á innleiðingartímabilinu. Á meðan verið er að setja þetta kerfi í gang þá er það skrifað í bráðabirgðaákvæði laganna að á árinu 2018 muni ríkissjóður greiða framlag til 80 samninga og samningum fjölgi síðan smám saman; árið 2019 eru það 103 samningar, árið 2020 eru það 125 samningar, árið 2021 eru það 150 samningar og árið 2022 eru það allt að 170 samningar. Svo nær það ekki lengra. Árið 2023 er ekki inni í þessum lögum. Það er óljóst hvort haldið verður áfram að borga fyrir 172 samninga árið 2023 eða ekki.

Í fjármálaáætlun er hins vegar sagt að fjárlög vegna NPA-samninga hækki varanlega um 320 millj. kr. frá árinu 2023 til að standa straum af gildandi samningum. Það er áhugavert af því að stjórnvöld, ríkisstjórnin, hafa ekki staðið við að greiða fyrir þann fjölda samninga sem kveðið er á um í lögunum þrátt fyrir að biðlisti sé eftir því að gera slíka samninga. Á síðunni npa.is er grein sem heitir „Sveitarfélög brjóta lög og ríkissjóður er áhorfandi“. Þar er fjallað um ákveðinn dóm varðandi skyldur sveitarfélaga til að gera þessa samninga þrátt fyrir að ríkissjóður komi ekki að sinni hlutdeild í þeim samningum. Stjórnvöld hafa hagað fyrirkomulaginu þannig að þegar fjárheimildin sem er samþykkt í fjárlögum klárast þá er ekki stofnað til fleiri samninga. Það er í raun dálítið öfugsnúið, miðað við hvað lögin segja sjálf, að á árinu 2018 á að stofna til 80 samninga, þ.e. ríkið greiðir fyrir sína hlutdeild í 80 samningum. Raunin var 78 samningar árið 2018. Árið 2019 átti þetta að vera komið upp í 103 samninga en ríkið greiddi bara fyrir 90, þeim fækkaði hlutfallslega. Árið 2020 voru það 125 samningar sem ríkið átti að greiða með en þeim fækkaði niður í 83 og á þessu tímabili, þetta var við fjárlagagerðina 2021, átti þetta að vera komið í 150 samninga en ríkið var þar einungis að greiða með 93 samningum.

Þetta er einmitt áframhaldandi í fjármálaáætluninni að gert er ráð fyrir að greiða af þeim gildandi samningum sem eru í fjárlögum. Það er svo öfugsnúið að í lögum standi annars vegar að ríkið ætli að greiða framlög með ákveðið mörgum samningum og setji fjárheimildir í það í fjárlögum sem duga síðan ekki. Þegar fjárheimildin klárast hættir ríkið bara að taka þátt í nýjum samningum. Þá segja sveitarfélögin eðlilega: Það er allt í lagi. Ef ríkið ætlar ekki að greiða sinn hluta í þessu þá getum við ekki stofnað til þessa samnings, annars þurfum við að fjármagna hann að fullu og samningurinn kveður á um að ríkið þurfi alla vega að koma að þessum fjölda. Væntanlega þýðir dómurinn líka að þegar ríkið er búið að standa að sínum hluta af kostnaði við þennan fjölda samninga, þá eru allir umframsamningar algjörlega á kostnað sveitarfélaganna. En við erum í þeirri stöðu að ekki er búið að ná þeim fjölda sem ríkið stendur að. Þegar ríkið ákveður að hætta við og taka ekki þátt í því að greiða fyrir samninga þá er mjög skiljanlegt að sveitarfélög hætti líka við og stofni ekki til samninga sem ríkið tekur ekki þátt í að greiða. Þetta er frekar ósanngjarnt og er á ákveðinn hátt dálítið einkennandi vandamál hvað það varðar hvernig farið er með fjárheimildir.

Hvað fjárheimildir varðar er rétt hjá stjórnvöldum að segja: Nú er fjárheimildin bara búin. Við erum ekki með meira fjármagn og þar af leiðandi megum við ekki greiða meira. Þetta er tæknilega séð rétt samkvæmt stjórnarskrá. Það er ekki í fjárlögum að greiða megi þessa fjármuni. En í svo mörgum öðrum málum halda stjórnvöld samt áfram að greiða fyrir réttindi fólks þrátt fyrir að fjárheimild sé ekki til staðar, þau koma bara með fjáraukalagafrumvarp seinna. Við getum nefnt atvinnuleysisbætur sem dæmi. Þó að þær fari langt fram úr fjárheimildum er ekki hætt að borga barnabætur eða húsaleigubætur eða atvinnuleysisbætur, haldið er áfram að greiða þrátt fyrir að fjárheimild sé ekki til staðar. Það er einhvern veginn ætlast til þess, og er svona ákveðin hefð fyrir því, sem er í raun mjög slæm, að það sé bara gert upp eftir árið, að fjárheimildum sem vantar upp á sé sópað upp þegar yfir lýkur. Lög um opinber fjármál eru dálítið skýr með þetta. Þessir fjárlagaliðir fara þá bara í mínus og ráðherra þarf að útskýra hvernig á að ná jafnvægi á þessum fjárlagaliðum, hvort mæta þurfi því með því að segja að um vanmat hafi verið að ræða og í næstu fjármálaáætlun og fjárlögum er það bara leiðrétt. Það þarf ekki að koma til móts við þetta með nýjum fjárheimildum eða fjáraukalögum, í rauninni ekki. En stjórnarskráin er dálítið fyrir hvað það varðar. Þess vegna myndast þetta vandamál með NPA-samningana. Ef strangt til tekið er verið að fara eftir fjárlögunum, að það megi ekki greiða, þá er það þannig.

Ástæðan fyrir því að þetta er að gerast er sú að verðmætamat ríkisstjórnarinnar, fjármálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins eða hvaða ráðuneytis sem metur hvað hver samningur kostar, er einfaldlega of lágt. Það er ástæðan fyrir því að það er of lítið fjármagn. Að jafnaði er kostnaðurinn við hvern samning ákveðið hár, nema þeim sem sækjast eftir því að fá slíkan samning er forgangsraðað eftir mikilvægi, eftir nauðsyn, og það vill vera þannig að það eru yfirleitt dýrustu samningarnir fyrst. Ef þú tekur 25% allra samninga, dýrustu samningana, er meðaltal þeirra að sjálfsögðu mun hærra en meðaltal allra samninganna og þar af leiðandi klárast fjármagnið miklu fyrr ef ekki er verið að fjármagna alla samningana og miða við meðaltal allra samninga heldur bara þeirra sem eru dýrastir. Kannski áttuðu stjórnvöld sig ekki á því að það yrði forgangsraðað þannig þegar verið væri að velja hverjir fengju samninga og hverjir ekki eða kannski var það bara gert að yfirlögðu ráði. Ég hef ekki hugmynd um það en niðurstaðan er alla vega sú að fjármögnun ákveðins fjölda samninga er lofað en það er ekki uppfyllt, það er alltaf minna og minna uppfyllt með hverju árinu.

Ég vil vekja athygli á þessu vandamáli með tilliti til fjárlaga og til fjármálaáætlunarinnar sem verið er að vísa til. Það er í raun ekki heimild í ákvæði til bráðabirgða um einhverja hlutdeild ríkisins á árinu 2023 og seinna, þrátt fyrir að einhverjar væntingar séu til þess að ríkið haldi áfram. Það er alla vega búið að setja það í fjármálaáætlunina. En fjöldinn er enn vandamál og dómurinn sem féll nýlega, um að sveitarfélögum væri skylt samkvæmt þessum lögum að veita þessi framlög til að stofna til þessara samninga mun hafa áhugaverð áhrif á þennan málaflokk á næstunni. Samkvæmt skilgreiningu þessa máls, um að laga verði til vinnutímann og hvíldartímann og slíkt, verður þetta áhugaverð þróun á næstunni og vandamál. Þetta er fyrirsjáanlegt vandamál sem þarf að tækla. Það er engin stefnuyfirlýsing um þetta í fjármálaáætluninni, eins og maður myndi búast við.

Þarna er vandamál. Þarna er búið að setja lög sem veita fólki ákveðin réttindi. Það er ekki verið að uppfylla þau réttindi. Þar af leiðandi er um að ræða ákveðið vandamál sem þarf að koma til móts við en það er ekkert í stefnu stjórnvalda, sem á að birtast í fjármálaáætlun, sem segir okkur hvernig á að gera það til næstu fimm ára. Það eina sem það segir mér er að það verður ekkert gert í því. Þetta verður viðvarandi vandamál sem endar eins og alltaf á sveitarfélögunum sem munu væntanlega, eins og er með mörg önnur verkefni, bara segja: Nei takk. Við hendum þessu aftur í hausinn á ríkinu. Hvert erum við þá komin? Það fólk sem hefur þessi réttindi samkvæmt lögum situr þá eftir með sárt ennið. Ég er frekar sorgmæddur yfir því að við sjáum ekki einu sinni tillögur um það hvernig eigi að leysa þetta vandamál. Það eru ekki einu sinni drög að hugmyndum um hvernig eigi að gera það. Það er í rauninni ekkert flókið. Það þarf fjármagn í þetta, það er ekkert flóknara en það.

Það er í alvörunni tilgangur ríkisstjórnarinnar að fjármagna lögbundin verkefni. Alþingi hefur sett ákveðin lög um réttindi og skyldur manna. Það kostar ákveðinn pening að uppfylla þau réttindi og það er verkefni ríkisstjórnarinnar að finna út úr því hvernig haga á fjármögnun á því. Við sjáum engar lausnir þannig að ég hlakka til að sjá hvernig þetta mál þróast. Þetta verður líklega rifrildi áfram næstu árin, alla vega á meðan við erum með ríkisstjórn sem gerir ekkert í þessu.