Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[17:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu þessa nefndarálits. Hér er á ferðinni mjög gott mál sem ég styð heils hugar. Það er ákaflega mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem kynda húsnæði sitt með rafmagni. Það er kostnaðarsamt og þeim gæðum að njóta hitaveitu er mjög misskipt. Það eru u.þ.b. 10% heimila, held ég, sem njóta ekki þeirra miklu lífsgæða sem hitaveitan felur í sér.

En það sem ég vildi koma aðeins inn á og spyrja hv. þingmann um er þessi niðurgreiðsla kostnaðar. Ég fagna breytingartillögunni um að hækka þessa niðurgreiðslu úr 1 millj. kr. í 1.300.000 kr. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hægt sé að nýta þessa styrkveitingu eitthvað — það er talað um eingreiðslu — í þessa framkvæmd, þ.e. að setja þennan búnað upp. Það fylgir því náttúrlega kostnaður og væri æskilegt ef hægt væri að fá heimild til að nýta eitthvað af þessum styrk til að setja búnaðinn upp, ef hv. þingmaður gæti aðeins farið yfir það með mér. Ég fagna því sérstaklega að auk þess er hægt að fá styrk til að nota annan tæknibúnað en varmadælur. Það er mjög af hinu góða. Það eru mörg og mikil tækifæri í þessu og ýmsar nýjungar, en allt ber þetta að sama brunni, að lækka húshitunarkostnað þeirra sem hafa ekki hitaveitu.