Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni kærlega fyrir andsvarið og spurninguna. Ég tek undir með þingmanninum, ég held að hér sé um að ræða alveg gríðarlega mikilvægt mál. Það er rétt að enn eru það um 10% af íbúum landsins sem ekki njóta hitaveitu og kynda húsin sín með öðrum hætti. Ég fagna því skrefinu sem verið er að stíga núna, að koma til móts við þessa íbúa og gera þeim auðveldara að koma varma í húsin sín með öðrum hætti en að brenna olíu, eða rafhitun. Varðandi búnaðinn sem hv. þingmaður talar um, hvort hægt sé að nota styrkinn að hluta til í uppsetningu á honum, þá er tekið á því í nefndarálitinu og það er hægt. Gert er ráð fyrir því að nota þetta í lagnakerfi úti. Það sem var verið að hugsa í því er einfaldlega það að það kerfi sem nýtist hvað best eru þessar jarðvarmadælur. Þær eru dýrastar vegna þess að það kostar töluvert að setja þessar jarðlagnir upp. Til þess að ná mestri hagkvæmni út úr verkefninu tókum við sérstaklega á því í nefndarálitinu að gert væri ráð fyrir að sá kostnaður væri endurgreiðanlegur og styrkhæfur í þessu verkefni. Það er tekið á því. Varðandi þennan búnað þá er talað um þann búnað sem Orkustofnun telur styrkhæfan en það orðalag er til komið vegna þess að við erum kannski ekki alveg með það á hreinu í dag hvaða búnaður verður í boði eftir tvö, þrjú eða fjögur ár.