Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[17:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Það er mjög gott að það komi fram að hægt er að nýta styrkinn til að setja upp búnaðinn sem þessu fylgir; hann getur verið töluverður eins og hv. þingmaður nefndi hér. Mig langaði aðeins í síðara andsvari að spyrja hv. þingmann — ég veit ekki nákvæmlega hvað hann hefur mikla þekkingu á því — um hans sjónarmið gagnvart því að hér er verið að mæla sérstaklega með annars konar búnaði til að kynda hús en ekki hitaveitunni.

Orkusjóður hefur, ef ég man rétt, styrkt rannsóknir og borun eftir heitu vatni. Ég tel afar mikilvægt að við sláum ekki slöku við í þeim efnum. Þó svo að hér sé verið að stíga mikilvægt skref til að aðstoða þá sem kynda með rafmagni þá er það aldrei það sama. Hús sem eru kynt með rafmagni eru aldrei eins og hús sem eru kynt með hitaveitu. Ég held að allir séu sammála um það og þegar kynt er með rafmagni er maður að spara; það er hætta á því að vatnið klárist í sturtunni ef margir eru í heimili o.s.frv. Það er því afar mikilvægt að við sláum ekki slöku við við að rannsaka köldu svæðin með það að markmiði að þar finnist heitt vatn. Við höfum gott dæmi um mikilvægi þess eins og á Höfn í Hornafirði þar sem verið er að hitaveituvæða samfélagið þar sem er gríðarleg búbót fyrir þá sem þar búa. Maður hefði kannski ekki trúað því að það myndi gerast á næstu árum en það er orðið að veruleika. Ég óska þeim sem þar búa, því ágæta fólki, innilega til hamingju með að fá hitaveitu.

Mínar vangaveltur eru þessar, hv. þingmaður: Er nokkur hætta á því að slegið verði slöku við að rannsaka hvort heitt vatn finnist á köldum svæðum?