Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[17:56]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir framsögu sína og flutning þessa máls. Eftir að hafa skoðað frumvarpið, og ég tók þátt í 1. umr. um þetta frumvarp, og skoðað greinargerðina með frumvarpinu þá sér maður eftirfarandi:

„Með varmadælum og öðrum orkusparandi búnaði væri að mati Orkustofnunar hægt að losa um allt að 110 GWst í aðra notkun, en 110 GWst samsvarar raforkunotkun 50 þúsund rafbíla.“

Þessar 110 gígavattstundir verða þá seldar annað og flytjast úr virðisaukaskattsþrepi sem er 11% fyrir rafhitun í virðisaukaskattsþrep fyrir aðra raforkunotkun sem er 24%. Það eykur tekjur ríkisins sem því nemur. Þessi notkun á búnaðinum sem er umhverfisvænn og til bættrar orkunýtingar leiðir líka til þess að útgjöld ríkisins til niðurgreiðslna lækka til langs tíma þannig að ríkið er bæði að spara pening og fá auknar tekjur. Eins og kemur fram í frumvarpinu, um mat á áhrifum þess, er gert ráð fyrir að mismunur útgjalda til skamms tíma verði fjármagnaður með auknu 50 millj. kr. árlegu útgjaldasvigrúmi á málefnasviði 15, um orkumál. Núna nemur styrkurinn um helmingi kostnaðarins, að hámarki 1 milljón, en með breytingartillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir 1,3 millj. kr. Hefði ekki verið rétt, (Forseti hringir.) miðað við það að þetta sparar ríkinu og eykur tekjur ríkisins, að auka hlutfall kostnaðarins úr helmingi í 75%? Það má líka hafa í huga stefnumörkun ríkissjóðs varðandi orkuskiptin.