Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið og þessar spurningar. Þetta er allt rétt og satt sem hv. þingmaður fer inn á, ríkið er að spara sér þarna útgjöld, þau lækka út af þessu, og sömuleiðis verður til töluvert mikil raforka sem fer í annað skattþrep og tekjur ríkisins í henni aukast þá á móti. Spurning hv. þingmanns varðaði þetta endurgreiðsluhlutfall og upphæðina, hvort hún hefði ekki átt að vera hærri. Því er helst til að svara að við ræddum þetta töluvert í nefndinni og þetta varð niðurstaða hennar. Eins og hv. þingmaður getur glöggvað sig á er nefndin öll á þessu frumvarpi þannig að ekki var hægt að skilja það öðruvísi en að menn væru nokkuð sáttir með þeirri lendingu sem þetta frumvarp endaði í og þar á meðal þessa tölu. Auðvitað má spyrja sig hvort hún hefði átt að vera hærri eða hvort hún hefði átt að vera lægri. Menn geta haft skoðanir á því og ég ætla svo sem ekkert að úttala mig um það hér. En þetta er niðurstaða nefndarinnar allrar og ég held að hún sé mjög ásættanleg og ég held að það hafi verið skynsamlegt að færa upphæðina úr milljón í 1,3 millj. kr. Ég held að það breyti miklu og þannig að það sé sagt enn og aftur þá held ég að þetta frumvarp eigi eftir að breyta miklu fyrir lífsgæði fólks á köldum svæðum.