Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir framsöguna á þessu mikilvæga frumvarpi. Það er að sjálfsögðu þannig að við erum að lifa tíma þar sem margt er að gerast þegar kemur að orkuöflun og því hvernig við hitum upp hús og annað. Mörg okkar sem erum nógu gömul munum að sjálfsögðu eftir því þegar alls staðar í sveitum og annars staðar var ekki nein hitaveita í boði, jafnvel þótt heita vatnið væri nálægt. Hér er um mikilvæga styrki að ræða, styrki sem hjálpa fólki að komast úr því að nýta rafmagn eða jafnvel olíu til þess að hita upp húsin sín, og gefa því kost á að nýta sér tækni eins og t.d. varmadælur. Ég veit að á mörgum stöðum erlendis, þar sem eru einmitt köld svæði, eru varmadælur mikið nýttar til að draga úr þörfinni á orku sem er ekki umhverfisvæn og því er líka mikilvægt að við séum að nýta okkur þessa tækni hér heima. Þó svo að við höfum þetta frábæra heita vatn mjög nálægt okkur á mörgum stöðum þá eru svæði þar sem svo er ekki. Það gildir náttúrlega líka í sérstaklega dreifðum sveitum að þar er kannski ekkert alltaf ódýrt að leggja hitaveitur alla leið út í hvern einasta dal. Ég veit það bara að í minni sveit upp í Kjós kostaði dálítið mikið að fá heita vatnið inn og það mun taka lengri tíma fyrir marga að byrja að nýta sér það.

Vegna þess að ég var einmitt fjarverandi þegar þetta frumvarp var tekið fyrir í nefndinni, þá langar mig að þakka nefndinni fyrir að taka tillit til margra þeirra athugasemda sem komu hér í upphafi, þegar þetta mál kom til 1. umr. Ég var rosalega duglegur að segja hæstv. umhverfisráðherra í þeirri umræðu að ég myndi senda þessar hugmyndir mínar til umhverfis- og samgöngunefndar þegar ég hélt að þetta færi þangað en svo benti hann mér á að það færi bara beint í þá nefnd sem ég sjálfur sit í.

Ég hefði kannski persónulega viljað sjá eitt atriði breytast: Mér finnst svolítið langt að styrkirnir séu samningsbundnir til 15 ára. Ég segi það vegna þess að sú þróun sem mun eiga sér stað á næstu fimm til tíu árum, hún mun verða ansi mikil og ég hefði viljað sjá þessa tölu fara alla vega niður í tíu ár. En við bara vonum það að ef það kemur einhver frábær ný tækni, miklu betri en varmadælurnar, eða eitthvað sem gerir það að verkum að hægt væri að nýta varmadælurnar betur, að þá finnum við leið til að styðja fólk í að fara yfir það. En það var einmitt mjög gott að frumvarpið er ekki lengur bara fyrir varmadælur heldur einnig fyrir nýja tækni, svo ef ný tækni kemur til sögunnar á næsta ári og fólk vill nýta sér hana þá er það af hinu góða. En mig langaði bara að þakka nefndinni fyrir gott starf í þessu og ég veit að það er fullt af fólki úti um allt land sem mun fagna því þegar búið er að samþykkja þetta sem lög frá Alþingi.