Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:15]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir með honum að hitaveita er mikil lífsgæði. Við Íslendingar erum mjög lánsamir að eiga svona mikið heitt vatn og öll þau miklu tækifæri í ferðamennsku og öllu þessu sem við þekkjum hvað það varðar. En fyrst og fremst eru það náttúrulega lífsgæði fyrir íbúa landsins að í okkar harðbýla landi fáum við allt þetta heita vatn. En það eru ekki allir sem njóta þeirra lífsgæða eins og komið hefur fram og þetta frumvarp á að koma til móts við þá. Ég er mjög ánægður með frumvarpið svo langt sem það nær. En ég er líka áhugasamur um auknar hitaveituframkvæmdir og að við höldum áfram leit að heitu vatni vegna þess að það hefur margt breyst í þeim efnum sömuleiðis. Nú er t.d. hægt að hita upp hús, sérstaklega hús sem eru hituð með gólfhita, með lægra hitastigi en þau sem kynda með hefðbundnum hætti, þ.e. með ofnakerfi. Því er til mikils að vinna og ég held að það sé alveg þess virði að þegar svo vill til að það vantar einhverja nokkra kílómetra upp á að heitavatnslögn þjóni ákveðnu svæði eða þeim sem búa þar, það eru dæmi þess hér á landi, þá verði skoðað að koma t.d. til móts við þessi fyrirtæki með einhverjum hætti til að þau leggi í þessa framkvæmd vegna þess að þegar upp er staðið þá hagnast þessi veitufyrirtæki á því að fá niðurgreiðslu ríkissjóðs og sjá sér kannski meiri hag í því að selja rafmagnið til húshitunar en að fara í einhverja hitaveituframkvæmd. Eins og ég sagði þá þekki ég þetta dæmi hér suður frá þar sem ég bý. Þar endar hitaveitulögnin á miðri leið og eru u.þ.b. 30 notendur sem njóta ekki hitaveitu. Það var ákveðið að fara ekki lengra með lögnina og nú er þetta fyrirtæki komið að stórum hluta í einkaeigu og sér sinn hag í því að selja (Forseti hringir.) rafmagn frekar en að leggja hitaveitur. Því eru þetta eru hlutir sem við þurfum að skoða vegna þess að öll stefnum við að sama marki, að íbúar þessa lands njóti þeirra gæða sem felast í heita vatninu sem við eigum.