Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:18]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að það er margt áhugavert að gerast í þessu. Eitt af því sem við svo sannarlega höfum séð er t.d. það að við erum farin að nýta vatn úr dýpri borholum en hefur verið gert áður. Það er mjög áhugaverð nýsköpun vegna þess að ef við getum farið að nýta heitt vatn sem er á meira dýpi heldur en við höfum nýtt hingað til, þá erum við ekki bara að opna fyrir möguleika á því að nýta það hér á landi heldur er mikið af svæðum, t.d. í Evrópu, þar sem menn hafa bent á að hægt væri að nýta jarðhita á meira dýpi heldur en almenna hitaveitan gerir núna. Þetta eru hlutir sem gætu orðið mjög áhugaverðir varðandi að losna undan olíunni og gashitanum, sem hita upp stóran hluta Evrópu. Ef við höldum áfram að styrkja rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði þá gætum við kannski farið að leysa orkuvanda Evrópu eftir einhver ár, ekki með sæstreng eins og sumir tala um.