Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson stal nú svolítið af mér glæpnum, en það var greinilega sama setningin sem kveikti í okkur báðum varðandi dýrar hitaveituframkvæmdir og hvernig við gætum komið til móts við þær. Hafandi verið í sveitarstjórn í 12 ár á svæði þar sem við höfum eytt miklum fjármunum og miklum krafti í að reyna að dreifa heitu vatni um svæðið þá þekki ég vel hvað þetta geta verið kostnaðarsamar framkvæmdir og erfiðar oft og tíðum.

Staðan er einfaldlega þannig, og það er nú ástæðan fyrir því að mig langaði að koma hérna upp og þetta kveikti aðeins í mér, að við erum á þeim stað núna að sums staðar er nánast ógerningur að koma með hitaveitu. Kostnaðarlega og framkvæmdarlega er það nánast ógerningur. Við erum kannski að tala um einhverja tvo, þrjá bæi einhvers staðar og eru tölurnar þannig að það er ekki réttlætanlegt að gera það, eins ömurlegt og það er. Þessi umræða hefur komið fram og mig langaði bara að nefna hér að hvað varðar sveitarfélögin sem eru í þessum hitaveituframkvæmdum og leggja metnað í að hitaveituvæða sína bæi, að þá finnst mér ekkert ólíklegt að þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum, sem við vonum svo sannarlega að það verði vegna þess að það er gott eins langt og það nær, að sveitarfélögin sjálf muni leggja til eitthvert mótframlag til þessara íbúa til að brúa bilið sem þarna er á milli. Sveitarfélögin niðurgreiða lagningu hitaveitu til sinna íbúa í dag. Því er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér, þegar þessar lausnir eru komnar á borðið, að þegar menn sjá að það er ekki hægt að fara í hitaveituframkvæmdir þá noti þeir fjármagn til að niðurgreiða þessar framkvæmdir að hluta til..