Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og gott að umræðan um hitaveitur kveiki í mönnum. Ég er alveg sammála því að við eigum að hugsa í lausnum og varmadælur geta einmitt verið lausnir fyrir þessa einn eða tvo bæi sem svarar ekki kostnaði að fara til. En við þurfum líka að hugsa svolítið um að kannski þurfi varmadælur og eitthvað annað. Nú er að verða framþróun í hlutum eins og vindorku og ýmsu slíku. Vandamálið við mikið af þeirri orku er að hún er ekki stöðug. Sem betur fer er ekki rok alltaf, alls staðar þótt það séu til staðir á Íslandi þar sem við viljum meina að sé alltaf rok. En þá þarf líka að hugsa um t.d. hvernig geyma á rafmagn til að geta hitað á næturnar þegar ekki er sól eða svona hlutir. Þá þarf að hugsa um batterí og öll þessi tækni þróast mjög mikið. Ég held að ef við erum opin fyrir því að hugsa í lausnum þá er hitaveitan að sjálfsögðu frábær þar sem hún er og þar sem hægt er að koma henni fyrir á þann máta að kostnaðurinn sé í lagi. En við eigum ekki bara einblína á hana. Einmitt það er gott við þetta frumvarp, þarna er verið að opna á þann möguleika að við getum hugsað í öðrum lausnum, ekki bara á köldu svæðunum heldur líka á þessum endadölum og annars staðar þar sem er dýrt og erfitt að leggja hitaveitur. Ég held bæði að það sé mikilvægt að við festum okkur ekki við eitthvað eitt og séum tilbúin að taka það og skoða hvenær sem er.