Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er algerlega sammála þessu og það er mjög mikilvægt að við festum okkur ekki í einni lausn vegna þess, eins og kom fram í umræðum nefndarinnar, að við höfum ekki hugmynd um hvaða lausnir verða komnar eftir einhver ár. Þá megum við ekki vera búin að loka okkur inni í lagaramma um einhverja eina ríkisgerð. Þess vegna er setningin sem er á þá leið að Orkustofnun samþykki þennan búnað sem styrkhæfan, lykilþátturinn. Því er ég algerlega sammála að við eigum að horfa til fleiri lausna en varmadæla.

Ég vil líka ítreka það hér, og ég var svolítið að velta þessu fyrir mér milli andsvara, að það er alveg rétt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á áðan, þ.e. að við megum ekki slá slöku við í hitaveituleitinni, leit að heitu vatni. Við eigum auðvitað að setja kraft í að reyna að finna leiðir og tæknin er alltaf meira og meira í þá átt að við þurfum ekki eins heitt vatn upp úr jörðinni til að búa til hitaveitur. Sú tækni er á fleygiferð og því eigum við ekki að setja punktinn hér. Þetta er bara ein leið af mörgum sem við getum farið. Ég fagna því að við séum komin hingað með þessa leið og ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er mín trú að með þessu móti munu mörg sveitarfélög taka við boltanum og keyra með hann til að leysa ákveðin vandamál varðandi veitukerfin hjá sveitarfélögunum.

Ég fagna þessu frumvarpi og held að við séum á góðri leið.