Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið og ég held að við séum hjartanlega sammála. Það er alveg á hreinu að við megum ekki bara hætta að leita að heitu vatni og við megum ekki hætta að þróa það hvernig við borum eftir heitu vatni. Við megum ekki hætta því að þróa hvernig við búum til leiðslurnar sem heita vatnið fer í. Allt eru þetta hlutir sem þurfa að halda áfram að þróast, við þurfum að halda áfram að nýta þá og þegar kemur að nýsköpuninni á þessu sviði þurfum við að styrkja rannsóknir og annað, vegna þess að um leið og við gleymum okkur í einhverri einni tækni eða lausn þá förum við fyrst að verða eftir á og náum ekki að nýta orkuskiptin eins vel og við getum.