Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur verið í kringum þetta góða mál sem hér er lagt fram um breytingu á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Þetta er mál sem skiptir þá sem njóta ekki hitaveitu miklu máli og hér er verið að einfalda þetta styrkjakerfi og breyta fyrirkomulagi á þessu kerfi, sem felur í sér bætta orkunýtingu í þeim húsum þar sem það er tekið upp og umfram allt lægri kostnað.

Ég fékk ágætissvör frá hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni varðandi styrkveitinguna. Það er ánægjulegt að heyra að einnig verði aðstoðað við að setja búnaðinn upp. Það er mjög mikilvægt og ég fagna því. Auk þess fagna ég þessari breytingartillögu sem kemur hér fram frá nefndinni þess efnis að hækka styrkveitinguna í 1,3 milljónir. Þetta skiptir allt máli. Það er kannski eitt sem hefur ekki komið fram í þessari umræðu, en nú getur það gerst eftir einhverja notkun, kannski nokkur ár, að þessar dælur gætu bilað og annað slíkt. Þá gæti jafnvel þurft að fjárfesta í annarri og þá er það ekki styrkhæft. Ég set þetta fram til umhugsunar vegna þess að ég þekki dæmi þess að svona tækjabúnaður hafi bilað og fólk hafi þurft að fara í kostnaðarsamar viðgerðir vegna þessa sem var þá ekki styrkhæft. En þetta er gott skref og mikilvægt og ég fagna því sérstaklega. Auk þess er það jákvætt að styrkurinn miðist nú við kostnað á kaupum á tækjabúnaði, í stað útreikninga notendanna sjálfra á áætluðum sparnaði. Þetta einfaldar allt kerfið, sem er mjög gott. Ég fagna því líka sem kom fram í máli hv. þm. Stefáns Vagns Stefánssonar þegar ég spurði hann hvort það væri nokkuð hætta á því að við færum að slá slöku við þegar kemur að jarðhitaleit, það er að segja leit að heitu vatni á köldum svæðum. Mjög mikilvægt er að það komi hér fram vegna þess að það er afar mikilvægt í mínum huga að við sláum ekki slöku við að leita að heitu vatni á köldum svæðum. Það hefur fundist heitt vatn á köldum svæðum þar sem menn áttu ekki von á því að finna það og tækninni hefur fleygt fram í þessum efnum, sem er mjög mikilvægt eins og ég rakti hér áðan. Ég veit dæmi þess að það hafi einmitt verið borað eftir heitu vatni á köldu svæði þar sem enginn átti von á því að fyndist vatn, og það fannst vatn. Eins og ég segi, þá eru gríðarlega mikil lífsgæði að búa við hitaveitu og við höfum rætt það hér í andsvörum í þessari umræðu. Þeir þekkja það best sem hafa kannski búið þar sem hitaveita er og síðan flutt á kalt svæði. Þeir þekkja best þau gríðarlegu lífsgæði sem felast í hitaveitunni. En ég fagna því líka að hér sé verið að opna fyrir styrkveitingar fyrir annars konar tækjabúnað, vindmyllur og sólarrafhlöður. Þetta er allt jákvætt og gott. En ég vil kannski að endingu koma inn á það, að mikilvægt er í mínum huga að menn kortleggi svolítið hvar svæði eru þar sem hægt væri að leggja hitaveitu, það er að segja framlengja lagnir og annað slíkt þar sem eru hús þar sem hitaveita er ekki til staðar og kynt með rafmagni. Ég þekki það persónulega þar sem ég bý. Ég kyndi með rafmagni og það eru einungis 800 m í heitavatnslögnina þar sem ég bý. Það hefur ekki fengist leyfi, eða alla vega hefur veitufyrirtækið sem sér um dreifikerfið ekki viljað leggja lögnina lengra. Það er náttúrlega ákaflega svekkjandi að vita það, sérstaklega á köldum vetrardegi, að það sé ekki nema örstutt í hitaveitulögnina en maður fái ekki heita vatnið. En þetta er veruleiki sem sumir þurfa að búa við og þess vegna hef ég verið áhugasamur um það hvort ekki væri eðlilegt að það yrði sest niður með þessum fyrirtækjum. Ríkisvaldið myndi gera það til að kanna hvort ekki væri hægt að halda áfram með slíkar lagnir. Nú er styrkveiting líka til staðar fyrir þá sem eru að bora eftir heitu vatni, en það dugar ekki til svo að leggja megi hitaveitu í þau hús þar sem hún er ekki til staðar. Þetta skiptir allt verulegu máli og við þekkjum það sem höfum búið á köldum svæðum að maður kyndir húsið sitt ekki með sama hætti og þeir sem hafa hitaveitu. Það er einfaldlega þannig að kaldara er á köldum vetrardögum hjá þeim sem kynda með rafmagni en þeim sem hafa hitaveitu og þess vegna er til mikils að vinna.

Þessi leið er mjög jákvæð og góð til að stuðla að því að bæta lífsskilyrði þeirra sem búa á köldum svæðum og búsetuskilyrði. Mér fannst mjög áhugavert að heyra hjá hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni þegar hann minntist á það að þeim fjölgaði sem vilja búa þar sem hitaveita er til staðar. Þegar búið er að leggja heitavatnslögnina þá er eins og það komi fleiri sem vilja búa á svæðinu. Hitaveituvæðing er því mjög jákvæð fyrir búsetuskilyrði og það er hlutur sem við eigum einnig að horfa til þegar við erum að velta fyrir okkur hvort það eigi að fara í frekari boranir og leit að heitu vatni.

Að lokum, herra forseti, þá fagna ég þessu frumvarpi eins og ég sagði hér áðan. Þetta er gott skref svo langt sem það nær.

Það sem ég vildi kannski nefna í þessu er að það er jákvætt að þessi styrkur sé undanskilinn tekjuskatti, enda er gert ráð fyrir því að öll fjárhæðin nýtist til niðurgreiðslunnar svo að frumvarpið nái sínu markmiði. Að sjálfsögðu er það mjög mikilvægt í þessu öllu saman. En að endingu þá eru mín skilaboð hér að við megum alls ekki slá slöku við þegar kemur að hitaveituleit og það á að sjálfsögðu alltaf að vera markmiðið að reyna að fækka þeim sem þurfa að kynda hús sín með rafmagni. Þetta eru, eins og hefur komið hér fram, um 10% þjóðarinnar, 10% húsnæðis á landinu. Það er til mikils að vinna að reyna að fækka þeim og færa þessum aðilum heitt vatn í formi hitaveitu. Það er þjóðhagslega hagkvæmt og það bætir lífsskilyrði þeirra sem búa á þessum svæðum og búsetuskilyrði. Því er frumvarpið að endingu gott og jákvætt skref og vonandi sjáum við þá sem búa á köldum svæðum nýta sér það sem hér er í boði því það er að sjálfsögðu mjög hagkvæmt að geta getað lækkað húshitunarkostnað, um allt að helming í sumum tilfellum, með því að setja upp varmadælur.