Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og fagna þessari umræðu. Ég er mikill áhugamaður um hitaveitu, sem er risabyggðamál. Því fagna ég að við getum tekið þessa umræðu í þingsal. En það sem mig langaði að koma örstutt inn á, í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði hér áðan varðandi bilanir og annað í þessum búnaði, er að það er alveg rétt — þessi búnaður getur eins og annar búnaður orðið ónýtur eða bilaður og þá er hann ekki styrkhæfur aftur. Reyndar er aðeins tekið á því í þessu, og langaði mig að ávarpa það hér í þessu andsvari mínu, að samningarnir voru til 20 ára og eru nú til 15 ára. Hugsunin í því í nefndinni var tvíþætt, annars vegar að koma til móts við þessar vangaveltur hv. þm. Birgis Þórarinssonar varðandi bilanatíðni á þessum búnaði en ekki síður, eins og við höfum áður komið inn á í þessari umræðu, þá vitum við ekki alveg hvert tæknin mun leiða okkur á næstu árum. Ef það verður kominn búnaður eftir 15 ár sem er miklu hagkvæmari, miklu skilvirkari og jafnvel ódýrari eða einfaldari í notkun en sá búnaður sem við höfum í dag, þá erum við að minnka samningstímann um fimm ár. Menn eiga þá möguleika eftir 15 ár, í stað 20 ára núna, að endurnýja sinn búnað og að fara þá í eitthvað sem er nýtískulegra og virkar betur en það gerir í dag.