Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög athyglisvert andsvar og ég tek heils hugar undir það. Þetta er mjög góð ábending og ég held að það sé algerlega þarft að hækka þetta hlutfall. 5% eru í raun og veru lágt hlutfall. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að fara þessa leið og ég hvet hv. þingmann til þess að leggja fram frumvarp þess efnis, og ég mun að sjálfsögðu vera meðflutningsmaður með honum á því, vegna þess að þetta er mjög mikilvægt. Mér fannst áhugavert að heyra hjá hv. þingmanni, sem ég veit að hefur búið víða erlendis, m.a. í Noregi þar sem allir kynda væntanlega með rafmagni og hafa svo sínar kamínur til að setja viðarkubbana í á veturna til að bæta hitann í húsunum, að hann þekkir mjög vel hvernig það er að búa á köldu svæði. Ég veit að þetta er eitthvað sem er sérkenni hjá okkur Íslendingum og við erum mjög lánsöm, eins og ég sagði í minni ræðu, að eiga allt þetta heita vatn — sundlaugarnar um allt og þau lífsgæði sem fylgja því að hafa hitaveitu. Þess vegna eigum við að mínum dómi að setja meira í það að leita að heitu vatni á köldum svæðum, vegna þess að dæmi eru um að vatn sé að finnast á köldu svæði þar sem menn héldu að ekki væri vatn fyrir. Það er mjög jákvætt og þess vegna eigum við að styðja vel við bakið á þessum hitaveiturannsóknum og ég styð heils hugar að hækka þetta hlutfall. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni og þakka honum fyrir mjög góða ábendingu í þeim efnum.