Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott andsvar og ekki síður áskorunina. Ég tel mjög mikilvægt að fjárveitingar til jarðhitaleitar verði auknar. Þegar maður hugsar þetta út frá því frumvarpi sem hér er, til bættrar orkunýtingar og orkuskipta, þá tel ég líka með hliðsjón af stjórnarsáttmálanum, þar sem er kveðið á um græna orku, orkuskipti o.s.frv., að íbúar hinna köldu svæða eigi að njóta góðs af þeim fjárveitingum sem fara til loftslagsmála, til orkuskiptanna og hins græna hagkerfis. Það myndi stórlega bæta lífskjör í landinu og jafna búsetuskilyrðin. Jarðhiti er algjörlega tæki til að bæta búsetuskilyrði og ekki síst lífskjör, og minnka útgjöld þessara köldu svæða til húshitunar.

Já, það er rétt, ég hef búið í Noregi og hef þurft að borga fyrir kyndingu á húsi þar. Ég bjó einu sinni í íbúð þar sem var svo kalt að við sváfum í stofunni og geymdum kökurnar inni í svefnherbergi. Það var þannig að þú hafðir ekki kveikt á ofnunum yfir daginn þegar þú varst í vinnunni. Þú komst heim í kalda íbúð og kveiktir á ofninum, rafmagnsofni, og þá fór rafmagnsreikningurinn að tikka. Því eru þetta lífskjör sem eru alveg ómetanleg. Ég get nefnt dæmi um kostnað við að fara í sund í Noregi, Ósló, en það kostar 350 kr. norskar á einum stað. Það eru 4.700 kr. fyrir einn miða í sund. Á öðrum stað kostar það 250 kr. Það eru 3.400 kr., á meðan við borgum með klippikorti niður í 500 eða 400 kr.

Ég tek áskoruninni vel um það og ég vona að við þingmenn, sem erum hér í salnum, getum kannski sameinast um frumvarp þar sem auknar fjárveitingar verða veittar til jarðhitaleitar. Ég vil að lokum spyrja þingmanninn hvort hann telji helmingskostnað (Forseti hringir.) vera nægjanlegan og hann sé 1,3 milljónir. Af hverju ekki að fara upp í 75% varðandi kostnað við varmadælur?