Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar sé mjög mikilvægt skref til orkuskipta og bættrar orkunýtingar. Frumvarpið er lagt fram af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og ég tel, eins og hér kom fram í 1. umr., að þetta sé líka mikilvægt skref til að jafna búsetuskilyrði í landinu ef það leiðir til þess að íbúar kaldra svæða geti keypt sér varmadælur eða tæki sem bæta orkunýtingu og leiða til umhverfisvænnar orkuöflunar.

Mig langar að ræða sérstaklega ákveðin atriði í þessu frumvarpi varðandi mikilvægi húshitunarkostnaðar fyrir landsbyggðina og lífskjör í landinu öllu. Við finnum það í Reykjavík, þar sem heita vatnið er ekki dýrt, hver munurinn er þegar komið er út á land, hvað þetta er miklu stærri hluti af útgjöldum heimilisins úti á landi en hér í borginni og á svæðum þar sem jarðhita nýtur við.

Við ræddum hér áðan í andsvörum að rafmagnsreikningurinn væri líka hár erlendis og hvað Íslendingar eru heppnir að búa að jarðhitanum, og hve mikilvægt er að við förum í alvöruátak að leita að jarðhita til húshitunar þar sem hann er mögulega að finna. Þetta er mikið lífsspursmál og myndi auka lífsgæði gríðarlega mikið.

Varðandi frumvarpið og niðurgreiðsluna þá segir í 6. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Styrkir á grundvelli 5. tölul. 11. gr. skulu jafngilda helmingi kostnaðar við kaup á tækjabúnaði, sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, að hámarki 1 millj. kr.“

Þessa fjárhæð hefur atvinnuveganefnd hækkað í 1,3 millj. kr. og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið þá kostar dæla og uppsetning hennar um 2,6 milljónir. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins segir að samkvæmt athugun Orkustofnunar fari kostnaður slíks tækis almennt ekki yfir 2 millj. kr. en ég held að ég sé með réttar tölur upp á 2,3–2,6 milljónir samkvæmt formanni atvinnuveganefndar og framsögumanni þessa máls. Ég sé því ekki betur en að þessi hækkun úr 1 milljón í 1,3 milljónir sé til að tryggja að raunverulega sé verið að styrkja um helming kostnaðarins, því ef við værum með helmings kostnað og bara 1 milljón þá myndum við ekki ná helmings kostnaði því þakið yrði alltaf 1 milljón. Þetta er eins konar leiðrétting á frumvarpinu sem lýtur að kostnaðinum, til að ná alltaf helmingnum. Þessi kostnaður nær til, eins og hefur komið fram hér í umræðunni, tækjakaupanna og uppsetningar á tækjunum, sem er mjög mikilvægt.

Þetta leiðir til þess, sem mér finnst aðalatriðið í þessu mikilvæga máli fyrir landsbyggðina og köld svæði að þetta sparar, ef fram fer sem horfir og eins og kemur fram í frumvarpinu og nefndaráliti atvinnuveganefndar um málið, 110 gígavattstundir af raforku sem fer þá í aðra notkun. Hversu mikið eru 110 gígavattstundir? Jú, það samsvarar raforkunotkun 50.000 rafbíla. Það munar um minna. Við þennan sparnað fer salan á raforkunni, sem er dag til húshitunar, úr 15% virðisaukaskattsþrepinu í 24% virðisaukaskatt þegar verið er að selja til annarrar raforkunotkunar. Tekjur ríkisins munu því aukast við þennan sparnað sem því nemur, af 110 gígavattstundum. Ég hef ekki reiknað út hversu mikið það er og það kemur ekki fram í frumvarpinu hversu mikið tekjur ríkisins aukast. Þannig að það er eitt atriðið, tekjur ríkisins aukast.

Annað atriðið er að við notkun slíks búnaðar, sem eru aðallega varmadælur, þá lækkar útgjaldaþörf ríkisins til niðurgreiðslna til langs tíma. Hversu mikið hef ég ekki á takteinum, en það á eftir að koma í ljós hversu margir nýta sér þetta. Það er stóra spurningin: Hversu margir munu nýta sér þetta? Ef við gefum okkur að kostnaðurinn sé 2,6 milljónir — ég segi ekki að það sé nákvæm tala — og helmings kostnaður niðurgreiddur, þá þýðir það að íbúðareigandi þarf sjálfur að greiða kostnað upp á 1,3 millj. kr. í útgjöld. Eingreiðslu upp á 1,3 milljónir. Það er mikill kostnaður fyrir fólk á landsbyggðinni og á köldum svæðum. Það er gríðarlega há tala. Ég er ekki með tölur yfir ráðstöfunartekjur fólks á landsbyggðinni að meðaltali, en þetta eru nokkur mánaðamót í ráðstöfunartekjum. Þetta eru mikil útgjöld. Ég er ekki viss um að íbúðareigendur muni ráða við að leggja strax út 1,3 milljónir til að spara húshitunarkostnað sinn. Það er oft dýrt að vera fátækur og þetta eru ekki mjög tekjuhá svæði að meðaltali.

Ég er því með breytingartillögu við þetta frumvarp sem miðar að því að í stað helmings kostnaðar verði niðurgreitt sem nemur þremur fjórðu hlutum kostnaðar, eða 75%, og að hámarki 1,5 milljónir. Við förum því úr 1,3 milljónum í 1,5 milljónir, án virðisaukaskatts. Þetta myndi þýða að einstaklingar, húseigendur eða fjölskylda sem fara í svona kostnað upp á 2,6 milljónir þyrftu einungis að borga 650.000 kr., í staðinn fyrir 1,3 milljónir. Ég tel að þetta myndi stórauka kaup á varmadælunum og muni leiða til þess að mun fleiri, eða nánast allir, myndu nýta sér þennan kost. Það leiðir til þess að orkusparandi búnaður muni losa um allt að 110 gígavattstundir eins og kemur fram í frumvarpinu. Þetta yrði þá klárlega hvati fyrir íbúðareigendur sem og yfirstíganleg fjárútgjöld.

Ég bendi á mat ráðuneytisins, eins og það kemur fram í frumvarpinu, en þar segir, með leyfi forseta:

„Að mati ráðuneytisins ætti styrkur fyrir 50% af kostnaði tækjabúnaðar að vera nægjanlega hvetjandi enda leiðir búnaðurinn til minni raforkunotkunar með tilheyrandi lækkuðum kostnaði fyrir notanda.“

Í frumvarpinu er ekkert fjallað um eða lagt mat á það hversu mikið ríkið sparar. Það vantar alveg inn í þetta hversu mikið ríkið sparar með lækkun niðurgreiðslnanna og líka með aukningu á tekjum. Ég held að það væri mjög auðvelt að reikna það út ef við myndum miða við 110 gígavattstundir sem færu í aðra notkun í 24% virðisaukaskattsþrepi.

Því tel ég líka með vísan til vilja ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í ríkisstjórnarsáttmálanum, um að fara í orkuskipti, mikla áherslu á græna hagkerfið og ekki síst loftslagsmálin, að það sé vilji til að vera best í heimi í þeim málaflokki eins og öðrum málaflokkum hér á Íslandi. Þá tel ég að ef einhvers staðar sé vilji til þess að vera best í heimi þá er klárt mál að hann ætti að beinast að íbúðareigendum í landinu, venjulegu fólki sem á íbúðarhúsnæði, þá á köldum svæðum sem nota jafnvel olíu sem orkugjafa. Það myndi leiða til umhverfisvænni orkuöflunar og bættrar orkunýtingar. Miðað við útgjöldin sem ríkisstjórnin stefnir að á næstu árum þá eru þetta smápeningar, sem myndu leiða til þeirrar aukningar sem breytingartillagan felur í sér.

Þá vil ég líka benda á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að mismunur útgjalda til skamms tíma verði fjármagnaður með auknu 50 millj. kr. árlegu útgjaldasvigrúmi á málefnasviði 15 um orkumál, frá og með 2023 og það sem eftir stendur með ráðstöfun fjárheimilda af málefnasviði 17 um umhverfismál sem ætlaðar eru til orkuskipta. Því muni lögfesting frumvarpsins ekki hafa nein fjárhagsáhrif á ríkissjóð.

Svo virðist vera sem ríkið ætli að hvetja til orkuskipta og umhverfisvænnar orkuöflunar án þess að leggja raunverulega til neina fjármuni, það eina sem skiptir máli. Hins vegar eiga íbúðareigendur að gera það, alla vega 1,3 milljónir fyrir hverja varmadælu. Það finnst mér mikill peningur. Þetta eru smápeningar fyrir ríkið í heildarsamhengi fjárlaga og veltunnar sem er á ríkissjóði. Þetta myndi skipta gríðarlega miklu máli fyrir köldu svæðin og því legg ég til þessa breytingartillögu og vísa málinu aftur til nefndar með það í huga að hún taki það til skoðunar og fari jafnvel fram á útreikninga frá ráðuneytinu á hversu mikið sparist í útgjöldum og hversu miklar tekjur komi í ríkissjóð með þessum tekjusparandi aðgerðum.

Ég veit að þetta var að vissu leyti rætt í nefndinni. Ég á því miður ekki sæti í atvinnuveganefnd en á sæti í fjárlaganefnd og allsherjar- og menntamálanefnd. Ég, sem þingmaður kalds svæðis í mínu kjördæmi, tel þetta skipta mjög miklu máli fyrir kjördæmið og landsbyggðina alla. Þetta er líka til þess að jafna búsetuskilyrði. Það er grundvallaratriði. Það verður að fara í alvöruátak til að jafna búsetuskilyrði í landinu. Fólk flytur ekki að ástæðulausu til Reykjavíkur og býr á höfuðborgarsvæðinu. Einfaldlega eru búsetuskilyrði betri hérna, mikið til út af regluverkinu og hvernig samfélagið er sett upp varðandi lagaramma og annað slíkt. Líka ef talað er um samgöngur, húshitunarkostnað og fleira. Það er ástæða fyrir því að fólk hefur verið að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þar eru einfaldlega betri lífskjör og betri búsetuskilyrði.

Annað sem mig langar að koma inn á að lokum og kom fram hér áður varðar leit að heitu vatni. Við ræddum hér áðan í andsvörum að það er jafnvel vilji til að auka við þau 5% sem kveðið er á um í 16. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, sem fara í jarðvarmaleit. Það verður skemmtilegt verkefni í framtíðinni að skoða þann möguleika. Mér finnst þær umræður vera mjög góðar sem hér hafa átt sér stað og mjög fræðandi. Ég þakka fyrir þær. Ég vil ekki hafa þetta lengra en legg fram þessa breytingartillögu og vísa málinu til nefndar.