Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru bara nokkrir punktar sem mig langar að koma inn á. Svo það sé alveg skýrt, af því að hv. þingmaður kom inn á það áðan að styrkurinn væri fyrir uppsetningu, þá skal því haldið til haga svo það sé öllum ljóst og hér sagt að sá kostnaður sem er styrkhæfur samkvæmt þessari tillögu er utan dyra. Allar framkvæmdir inni í húsnæðinu sjálfu varðandi ofnakerfið og lagnakerfið eru ekki styrkhæfar samkvæmt þessu. Því felur þetta að sjálfsögðu í sér miklu meiri kostnað fyrir viðkomandi heldur en einungis að kaupa þessar varmadælur.

Annað sem mig langaði að koma inn á — af því að hv. þingmaður talaði um búsetuskilyrði og jöfnun búsetuskilyrða og að fólk muni mögulega flytja til Reykjavíkur vegna þess að það fær ekki heitt vatn eða kostnaðurinn sé orðinn of mikill við kaup á varmadælum — er að ef mér telst rétt til þá er munurinn upp á 200.000–250.000 kr. milli þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir og breytingartillögu hv. þingmanns. Ég velti því bara fyrir mér hver munurinn sé á fasteignaverði á köldum svæðum og í höfuðborginni. Hann er töluvert meiri en þessi upphæð, svo við þurfum líka að hafa það í huga. Mér er til efs að fólk spari út af þessum 250.000 kr. Þó veit ég það ekki.

En mig langar líka að benda á, síðustu níu sekúndurnar sem ég hef, að það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að menn átti sig á að kostnaðurinn við hitaveitu fyrir íbúa er töluvert mikill. Fólk er að borga töluvert háar upphæðir (Forseti hringir.) fyrir að taka inn hitaveitu. Ef við niðurgreiðum þetta að miklu leyti þá er spurning hvort við séum komin með ójafnvægi í kerfið.