Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[19:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég lít á það þannig þegar ég horfi á þetta frumvarp sem er breyting á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, umhverfisvæn orkuöflun, að það eigi að styrkja kaup á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar. Hámarkið í dag er 1,3 milljónir með breytingartillögu nefndarinnar. Ég tel að þarna sé verið að hvetja til þess að kaupa þessi tæki. Það er það sem er undir í þessu máli. Að sjálfsögðu getum við líka horft til jarðvarmaleitar, eins og miklar umræður hafa verið um, og eins í kostnað við hitaveitu. Það er sjálfsagt að gera það. En þar sem þetta mál er undir þá tel ég að helmings kostnaður sé ekki nægjanlegur, hann ætti að vera þrír fjórðu og 1,5 milljónir eins og ég hef fært rök fyrir í málinu.

Varðandi aðrar lausnir þá hefur líka komið fram að þetta geti haft þau áhrif að allir fari eingöngu í varmadælur. Mér finnst það allt í lagi. Þýðir það að við eigum ekki að fara í jarðhitaleit eða auka hitaveitunotkunina á landsbyggðinni? Alls ekki. Ég tel að við eigum að gera hvort tveggja. Um er að ræða þetta einstaka mál sem er klárlega til orkusparnaðar og við eigum að reyna að rúlla þessu út til sem flestra heimila í landinu, í flest húsnæði sem allra fyrst. Það myndi leiða til orkusparnaðar, sparar ríkinu pening, sparar útgjöld og eykur tekjur. Það þýðir ekki að við höldum ekki áfram að aðstoða sveitarfélög í landinu varðandi hitaveitur og jarðhitaleit. Alls ekki. Mér finnst þetta einnig spurning um hvort jöfnun búsetuskilyrða sé bara verkefni sveitarfélaga eða líka verkefni ríkisins. Mér finnst að ríkið eigi að koma miklu sterkar inn í það að jafna búsetuskilyrði í landinu. Það er mín sannfæring. Hvað þýðir svo nákvæmlega skilgreiningin á jöfnum búsetuskilyrðum? Við eigum að fara í alvöruvinnu hvað það varðar. Þetta er bara einn hluti af miklu stærra mengi.